Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Helmingur fullorðinna bólusettur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Helmingur fullorðinna Íslendinga hefur fengið að minnsta kosti fyrri bólusetningu við COVID-19 og þar af eru 22 prósent fullbólusett, eða 65 þúsund manns. 2,1 prósent fullorðinna hefur fengið COVID-19. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að stefnt sé að því að hefja handahófskennda bólusetningu í þarnæstu viku.

Langflestir fengið Pfizer og AstraZeneca

Flestir hafa fengið bóluefni Pfizer og BioNTech, um 70 þúsund manns. Næstflestir hafa fengið bóluefni AstraZeneca, tæplega 60 þúsund manns. Mun færri hafa fengið Moderna, aðeins um tíu þúsund manns, og jafnmargir hafa fengið bóluefni Janssen. 

Næstum allir yfir sjötugu hafa fengið bólusetningu, og næstum 90 prósent fólks á aldrinum 60-69 ára. Þá hafa um 70 prósent fólks á aldrinum 50-59 ára verið bólusett og 40 prósent á aldrinum 40-49 ára. 

Mikil dagskrá á höfuðborgarsvæðinu í næstu viku

Bólusetning virðist eiga að halda áfram af fullum krafti í næstu viku. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins bólusetur í Laugardalshöll þrjá daga í næstu viku: á mánudaginn verða konur yngri en 55 ára í áhættuhópum bólusettar með bóluefni Moderna, og haldið verður áfram með þann hóp á þriðjudaginn og bólusett með bóluefni Pfizer. Á fimmtudaginn verður svo blandaður hópur bólusettur með bóluefni Janssen; jaðarhópar, flugmenn og skipaáhafnir. Þá verður einnig haldið áfram að bólusetja starfsmenn grunn- og leikskóla.

Klára brátt forgangshópa

„Í þessari viku erum við að klára að bjóða öllum sem eru með undirliggjandi sjúkdóma. Þannig að þeir ættu allir að vera komnir með boð í þessari viku. Einhverjir hafa ekki þegið það bóluefni sem þeim hefur verið boðið og þá stendur til boða að bíða þangað til við verðum með opið hús síðar í sumar,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. 

„Í næstu viku munum við reyna að klára forgangshópa eins og kennara og leikskólakennara og aðra slíka. Ég veit ekki hversu langt við komumst með það,“ segir hún. Handahófskennd bólusetning hefjist svo sennilega í þarnæstu viku.

Opnir dagar samhliða handahófskenndum bólusetningum

Hvenær heldurðu að þessir opnu dagar verði?

„Ekki fyrr en seinna í sumar. Við þurfum að undirbúa tölvukerfi fyrir það því það verður væntanlega þannig að fólk bókar sig, rétt eins og fólk bókar sýnatöku. Og þess vegna krefst það meiri undirbúnings,“ svarar hún.

En á fyrst að klára handahófskennda bólusetningu eða verða þessir opnu dagar samhliða henni?

„Við reiknum með að það verði samhliða.“

Og getur það fólk sem hafnaði bóluefni þá fengið annað bóluefni á þessum opnu dögum?

„Já, það er hugsunin. Að þeir sem vildu til dæmis ekki Astra gætu þá bókað sig í annað bóluefni.“