Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hálendisþjóðgarður á bláþræði

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Kristján Þórisson - RÚV
Hverfandi líkur eru á að frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð verði afgreitt á yfirstandandi þingi. Vinna við frumvarpið er sögð skammt á veg komin og lítill vilji er innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að klára málið.

Frumvarpi um hálendisþjóðgarð var dreift á Alþingi í lok nóvember. Þá þegar var ljóst að málið yrði gríðarlega umdeilt og kom það berlega í ljós þegar umsagnir um frumvarpið tóku að hrannast inn. Umsagnir eru 158 talsins og þar togast á alls konar sjónarmið.

Málið sætir mikilli andstöðu meðal sveitarfélaga, einkum þeirra er eiga aðkomu að fyrirhuguðum þjóðgarði. Þá koma fram andstæðar skoðanir í umsögnum ferðafélaga, landeigenda, raforkufyrirtækja, hagsmunasamtaka og jafnvel hestamannafélaga. Mörg þessara sjónarmiða eru ósamræmanleg.

Þeir þingmenn sem fréttastofa hefur rætt við í dag telja flestir hverfandi líkur á að málið klárist á þessu þingi. Fyrir því eru bæði praktískar ástæður og svo pólitískar.

Mikil vinna, lítill tími

Praktísku ástæðurnar eru þær að einungis fjórar vikur eru eftir af yfirstandandi þingi og málið er nú statt í umhverfis- og samgöngunefnd á milli fyrstu og annarrar umræðu. Í ljósi fjölda umsagna er ljóst að kalla þarf fjölda gesta fyrir nefndina og þótt það ferli sé hafið eiga tugir enn eftir að koma fyrir nefndina. Þá er eftir að vinna úr öllum umsögnum, gefa nefndarálit og koma málinu í búning fyrir aðra umræðu.

Þess utan eru 15 stjórnarmál á borði nefndarinnar sem þarf að afgreiða, stór mál eins og fjarskiptamál, hringrásarhagkerfið og rammaáætlun, en örlög þess síðastnefnda hangir að sögn viðmælenda fréttastofu á afdrifum hálendisþjóðgarðsins.

Þingmenn í prófkjörum forðast slaginn

Svo er það pólitíska hliðin, því samkvæmt heimildum fréttastofu er lítill sem enginn vilji innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að klára málið í aðdraganda kosninga. Nú standa yfir prófkjör um allt land og lítil stemning meðal þingmanna að taka þennan slag samhliða prófkjöri. Þá er andstaðan mest í kjördæmum þar sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur standa sterkt og því lítill vilji til að rugga þeim báti fyrir kosningar.

Þingmenn Vinstri grænna hafa þó ekki gefið upp alla von, enda um að ræða eitt helsta baráttumál flokksins og til þess vísað í stjórnarsáttmála. Þeir gera sér þó grein fyrir að miklar breytingar þarf til að málið nái í gegn að ganga og binda vonir við einhvers konar málamiðlun. Hvernig sem sú málamiðlun kemur til með að líta út er ljóst að um hana verður deilt á þingi og umræður geta staðið lengi yfir. Þar er horft til Miðflokksins og því verða stjórnarflokkarnir að vega og meta hvort þeir telji tímanum vel varið í að koma þessu máli í gegn á meðan önnur mikilvæg sitja á hakanum.

Óformleg samtöl hafa átt sér stað milli þingflokksformanna um komandi þinglok. Sú umræða er skammt á veg komin og listi yfir mál sem leggja á áherslu á liggur enn ekki fyrir.