Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Gengu fram á átján dauða asíufíla

14.05.2021 - 04:32
Mynd með færslu
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Átján fílar fundust dauðir á náttúruverndarsvæði í Assam-héraði í Norðaustur-Indlandi í vikunni. Fílarnir, sem allir tilheyrðu sömu hjörðinni, eru taldir hafa drepist þegar eldingu sló niður í Kandoli-friðlandinu í Assam. Svo margir fílar hafa ekki fundist dauðir á einu bretti í héraðinu í 20 ár, samkvæmt frétt BBC. Það var heimafólk í nálægu þorpi sem lét yfirvöld vita af fíladauðanum, eftir að það gekk fram á hræin í skógi vöxnu friðlandinu.

Forsætisráðherra Assamhéraðs sagðist hafa áhyggjur af dauða svo margra fíla og lofar rannsókn á atvikinu. Ráðherra skógarmála sagðist á twitter vera sleginn yfir dauða fílanna, sem væri afleiðing „ógnarmikils þrumuveðurs."

Asíufílar eru á válista og teljast í útrýmingarhættu. Um 27.000 asíufílar eru á Indlandi, þar af um 4.500 í Assam-héraði.