Átján fílar fundust dauðir á náttúruverndarsvæði í Assam-héraði í Norðaustur-Indlandi í vikunni. Fílarnir, sem allir tilheyrðu sömu hjörðinni, eru taldir hafa drepist þegar eldingu sló niður í Kandoli-friðlandinu í Assam. Svo margir fílar hafa ekki fundist dauðir á einu bretti í héraðinu í 20 ár, samkvæmt frétt BBC. Það var heimafólk í nálægu þorpi sem lét yfirvöld vita af fíladauðanum, eftir að það gekk fram á hræin í skógi vöxnu friðlandinu.