Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fimm leikandi létt á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Because Music - Kick The Devil Out

Fimm leikandi létt á föstudegi

14.05.2021 - 12:40

Höfundar

Að venju er komið víða við í fimmunni þar sem við byrjum með syndinni og Django Django í kaffi; þaðan förum við í lausreimuðum strigaskóm á klúbbinn með UNKLE; Flying Lotus og Thundercat fara með okkur í ævintýraheim japanskra bardagamanna; Natalie Bergman biður Jesú um að láta ásjónu sína lýsa yfir sig og að lokum endum við þetta með sænskri sveitatónlist Önnu Leone.

Django Django – Kick the Devil Out

Bresku listaspírurnar í Django Django bjóða syndinni í kaffi í nýja myndbandinu við lag sitt, Kick the Devil Out. Lagið sem fjallar um að vera besta útgáfan að sjálfum sér er að finna á síðustu plötu sveitarinnar, Glowing in the Dark. Endurhljóðblöndunin Fimber Brovo mix er ansi hressandi líka og er að finna á Spotify-lagalistanum neðst í færslu.


UNKLE – If We Don't Make It

Íslandsvinurinn James Lavelle, sem kallar sig UNKLE, er enn á klúbbnum í laginu If We Don't Make It og ætlar að halda sig þar á Rōnin I mixteipinu sínu. Hugmyndin með verkefninu er að endurspegla nótt á djamminu frá upphafi til enda og miðað við fyrstu tvö lögin verð ég mættastur og langfremstur í röðinni þegar partýið hans James verður loksins haldið.


Flying Lotus, Thundercat – Black Gold

Flying Lotus sér um tónlistina í teiknimyndaseríu Yasuke á Netflix og í opnunarlaginu Black Gold, sem mætti mín vegna vera svona 10 mínútum lengra, er hann með nýbakaða Grammy-vinningshafann Thundercat með sér í fínu formi.


Natalie Bergman – Shine Your Light On Me

Þá er það gospel-tónlistin og það er Natalie Bergman sem biður Jesú að láta ásjónu sína lýsa yfir sig í sálarskotnu sækadelísku lagi sem heitir Shine Your Light On Me. Lagið er tekið af plötunni Mercy sem Natalie Bergman gefur út hjá plötufyrirtæki Jack White Third Man Records og er að fá fína dóma.


Anna Leone – Still I Wait

Sænska tónlistarkonan Anna Leone, sem er frá Stokkhólmi, hefur sent frá sér lagið Still I Wait þar sem sænska sveitin og rólegheitin eru í fyrirrúmi. Anna þessi hefur síðustu ár raðað inn viðurkenningum sem einn af heitari nýliðum Svíþjóðar, bæði í heimalandinu og erlendis.


Fimman á Spotify