Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Deildarmeistararnir fóru illa með Fjölni

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Deildarmeistararnir fóru illa með Fjölni

14.05.2021 - 23:16
Seinni leikur kvöldsins í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta hófst í kvöld. Deildarmeistarar Vals fengu Fjölni í heimsókn á Hlíðarenda. Skemmst er frá því að segja að Valskonur unnu gríðarlega sannfærandi sigur.

Leikurinn var sá fyrsti í einvígi liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik, þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið þar sem sigurliðið mætir annað hvort Haukum eða Keflavík.

Jafnræði var með liðunum fyrst um sinn í leiknum en strax í öðrum leikhluta kom munurinn á liðunum bersýnilega í ljós. Erfiðlega gekk fyrir gestina að koma boltanum í körfuna á meðan Valskonur léku á als oddi og leiddu í leikhléi 43-26.

Seinni hálfleikurinn var svo framhald af öðrum leikhluta, Valskonur tóku fótinn aldrei af bensíngjöfinni og unnu að lokum ótrúlegan 90-49 sigur og leiða einvígið 1-0.