Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Birta nákvæmari kort yfir gasdreifingu en áður

14.05.2021 - 22:50
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Veðurstofan hóf í dag að birta nákvæmari kort yfir gasdreifingu en áður. Kortin sýna sem fyrr staðsetningu og spáð magn brennisteinsdíoxíðs á jörðu niðri en einnig birtast nú kort sem sýna það svæði sem mengunar gæti orðið vart á næstu sex klukkustundum og næstu 24 klukkustundum. Þau kort gefa til kynna hvar og hvenær gasmengun gæti borist á ákveðin svæði án þess að segja til um nákvæman styrk eldfjallagasa.
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands

Gasdreifingalíkanið ofspáir magni brennisteinsdíoxíðs á jörðu niðri, samkvæmt gögnum Veðurstofunnar og Umhverfisstofnunar. Líkanið gefur nokkuð góða mynd af staðsetningu og tímasetningu gosefna í andrúmslofti en til að fá rétta mynd af aðstæðum á hverjum stað þarf að fylgjast með rauntímamælingum á loftgaedi.is.

Gasmengun hefur að mestu leyti borist til vesturs í dag, og gæti borist yfir byggð á vestanverðum Reykjanesskaga í kvöld eða á morgun. Áttin gæti orðið norðvestlæg um tíma síðdegis á morgun, og þá gæti gasið borist til suðausturs.