Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Áfram bannað að grilla

14.05.2021 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Viðbúnaðarstig almannavarna vegna gróðurelda hefur verið lækkað úr hættustigi niður á óvissustig á Reykjanesi eftir þó nokkra úrkomu. Viðbúnaðarstig hefur hins vegar verið hækkað úr óvissustigi yfir á hættustig á Norðurlandi vestra.

Að öðru leyti er hættan óbreytt og því áfram í gildi hættustig á sunnan- og vestanverðu landinu, frá Breiðafirði að Eyjafjöllum. „Það er byggt á fyrirliggjandi veðurspá og þeirri staðreynd að víðast hefur úrkoman ekki náð langt niður í jarðveginn og hann áfram þurr. Samkvæmt veðurspá eru NA áttir framundan með áframhaldandi þurkum. Hættustig almannavarna verður því áfram í gildi á þeim svæðum sem það náði til eða frá Breiðafirði að Eyjafjöllum,“ segir í nýrri tilkynningu fra almannavörnum. 

Óvissustigi var fyrst lýst yfir vegna gróðurelda 6. maí og svo hækkað upp í hættustig þann 11. maí. Þetta er í fyrsta sinn sem hættustig er í gildi hér á landi vegna hættu á gróðureldum.

Samhliða hættustigi almannavarna er í gildi bann við meðferð opins elds á hættusvæðum; á sunnan- og vestanverðu landinu og á Norðurlandi vestra. Þar er því óheimilt að kveikja eld, svosem að grilla eða vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista.

Eftirfarandi kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum:

Almenningur og sumarhúsaeigendur á skilgreindum svæðum eru hvattir til að:

  • Ekki kveikja eld innan sem utandyra (kamínur, grill, varðeldar, flugeldar og fleira)
  • Ekki nota einnota grill sem og venjuleg grill
  • Kanna flóttaleiðir við sumarhús  
  • Huga að brunavörnum (slökkvitæki, reykskynjarar) og gera flóttaáætlun
  • Ekki vinna með verkfæri sem hitna mikið eða valda neista
  • Fjarlæga eldfim efni við hús (huga að staðsetningu gaskúta)
  • Bleyta í gróðri kringum hús þar sem þurrt er