Tvö ný Daða-lög og glænýtt remix í pípunum

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV

Tvö ný Daða-lög og glænýtt remix í pípunum

13.05.2021 - 14:48

Höfundar

Daði Freyr lék á alls oddi á blaðamannafundi eftir aðra sviðsæfingu í Ahoy höllinni í dag.

Daði Freyr tilkynnti um tvö ný lög sem koma út á föstudaginn í næstu viku sem og glænýtt remix af 10 years, með einni af hans uppáhalds hljómsveitum. Enn er á huldu hvaða hljómsveit það er en eins og margir muna gerði Hot Chip remix af Eurovision laginu frá því í fyrra Think About Things. Fyrir utan það segist hann vera að vinna að stóru albúmi sem komi út árið 2022 ef allt gengur að óskum.

Daði fór vel yfir aðra æfingu í höllinni, sem fram fór síðdegis í dag. „Það voru pínulitlar breytingar miðað við fyrri æfingu. Ég leit til dæmis í myndavélina á einum stað, sem ég gerði ekki áður.“ Hann útskýrði einnig að sviðshreyfingar og allt atriðið hafi verið mjög svipað og á fyrri æfingu. „Það eru smá tvík í kameruhreyfingum,“ segir Daði og bætir við að enn sé verið að fínstilla atriðið og öll smáatriði þess. Æfingin var tekin upp til vara en Daði vill síður að hún verði send út. Best sé auðvitað ef Gagnamagnið fer allt á svið fimmtudaginn 20. maí og flytur lagið fyrir þá 3.500 áhorfendur sem mega vera í Ahoy. 

Áhugi á Gagnamagnsdansinum

Blaðamenn voru sérlega áhugasamir um danssporin í íslenska atriðinu. Jóhann Gagnamagnsmeðlimur fullyrti að danssporin væru flóknari en þau líti út fyrir að vera. Stefán bætti því við að þetta snúist fyrst og fremst um talningu í sporum til að vera með allt á hreinu. „Við erum öll dansarar núna en ekkert okkar var það áður en við gengum í Gagnamagnið,“ segir Daði sem hvetur atvinnudansara til að læra Gagnamagnsdansinn. Þá var Daði beðinn að sýna eitt spor. Hann stökk upp á borð og sýndi sína allra bestu „sassy“ stellingu við mikinn fögnuð viðstaddra. 

Sýnin á Eurovision gjörbreytt

Daði tók fyrst þátt í Söngvakeppninni árið 2017 með lagið Hvað með það? sem lenti í öðru sæti þegar Paper með Svölu Björgvins hreppti vinninginn. Sýn hans á Eurovision hefur breyst mikið síðan þá. „Mér fannst fyndið að taka þátt þá en nú sé ég þetta fyrst og fremst sem risastórt tækifæri. Ekki bara til að fá fleiri hlustendur heldur fær maður 3 mínútur á klikkaðasta sviði sem ég mun nokkurn tímann sjá á minni ævi. Það er allt súper faglegt og fjöldi myndavéla. Þetta er eitthvað sem ég gæti aldrei í lífinu gert ef ekki væri fyrir Eurovision.“

Ísland getur án efa haldið keppnina

Felix Bergsson fararstjóri íslensku sendinefndarinnar sat einnig blaðamannafundinn og tjáði sig um æfinguna í dag. „Við erum mjög, mjög ánægð. Þeim leið enn betur á sviðinu en á fyrstu æfingunni og notuðu myndavélar og sviðið betur. Persónuleikar þeirra og sjarmi skína í gegn. Þetta er mjög sterkt atriði sem við munum sýna heiminum.“ Þá hrósaði Felix hollenska framleiðsluteyminu fyrir faglegheit og gott samstarf. Eðlilega var hann spurður um það hvort Ísland gæti yfir höfuð haldið keppnina. „Við erum klárlega í stakk búin til þess að halda Eurovision ef til þess kemur, við höfum raunar verið að bíða eftir því í 35 ár. Treystið mér, það verður ekkert mál. Velkomin til Íslands 2022,“ grínaðist Felix.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hækkað í vindvélinni á seinni æfingu Daða

Menningarefni

Erlenda pressan spennt fyrir Daða og Gagnamagninu

Popptónlist

Daði klífur upp veðbankann eftir fyrstu æfingu

Tónlist

Daði og Gagnamagnið halda til Rotterdam