Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tveir létust í hlíðum Everestfjalls í gær

13.05.2021 - 04:42
Erlent · Asía · Everest · Nepal
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Tveir fjallamenn, annar Bandarískur en hinn frá Sviss, létu lífið í hlíðum Everestfjalls í gær. Þetta eru fyrstu dauðsföllin í hópi Everestfara á þessu klifurtímabili, samkvæmt nepölskum fjallaleiðsögumönnum.

Fjölmörg nepölsk fyrirtæki sérhæfa sig í að skipuleggja leiðangra á þetta hæsta fjall heims, þar sem klifurtimabílið var að hefjast. AFP-fréttastofan hefur eftir Chhang Dawa Sherpa hjá einu þessara fyrirtækja, Seven Summit Treks, að Svisslendingurinn hafi komist á tindinn en örmagnast og látist skömmu eftir að hann lagði af stað niður. „Við sendum tvo auka Sherpa til hans með aukasúrefni og mat, en þeir gátu því miður ekki bjargað honum,“ skrifaði Chhang á Instagram.

Bandaríkjamaðurinn komst upp á það sem heitir Hillary-þrepið, innan við hundrað metra frá tindinum, en örmagnaðist þar og var sleginn snjóblindu. Var honum þá hjálpað niður í fjórðu búðir, þar sem hann lést skömmu síðar.

Metfjöldi leyfa gefinn út í ár

Klifurtímabil síðasta árs fór fyrir lítið vegna kórónaveirufaraldursins og fór enginn á tindinn það árið. Til að bæta sér það upp hafa yfirvöld í Nepal gefið út metfjölda leyfa til að klífa hæsta tind Jarðar í ár, eða 408. Fyrra met, 381 leyfi, er frá 2019. Það ár fórust ellefu Everestfarar á leið sinni á tindinn eða af honum.