Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þórólfur biður Kára um aðstoð við greiningar á sýnum

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Sóttvarnalæknir biðlar Íslenska erfðagreiningu um aðstoð við að skima fyrir veirunni. Honum hugnast hvorki að hætta að skima þá sem koma með vottorð um bólusetningu né að taka upp hraðgreiningarpróf. Fleiri ferðamenn streyma nú til landsins en reiknað var með og greiningargeta Landspítalans er að ná þolmörkum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að það séu alltaf einhverjir sem greinist með veiruna þrátt fyrir að framvísa vottorði við komuna til landsins um bólusetningu eða fyrri sýkingu.

Geta komið hópsýkingar frá einum eða tveimur smituðum

„Við erum búin að taka sýni frá fólki sem kemur með bólusetningarvottorð og vottorð um fyrri sýkingu, frá 1. apríl. Það eru nokkur þúsund manns sem hafa framvísað slíkum vottorðum. Við höfum fundið nokkra einstaklinga sem bera með sér smit. Hlutfallið er svona um það bil 0,1%. Þetta eru ekki margir einstaklingar en ég bendi á að við höfum fengið stórar hópsýkingar frá einum eða tveimur einstaklingum á landamærunum. Þannig að við getum fengið faraldra. En við erum bara að safna þessum upplýsingum. Auðvitað kemur að því að við getum hætt þessu en þá þurfum við líka að vera nokkuð örugg á því að ónæmi hér innanlands hafi náð viðunandi mörkum svo að við fáum ekki sýkingar. Það er tilgangurinn,“ segir Þórólfur.

Þetta hefur verið nefnt sem leið til að létta álaginu á greiningunni. Finnst þér tímabært að gera það núna, að sleppa því að skima þá sem koma með vottorð?

„Nei, mér finnst ekki alveg vera kominn tími á það. Það er náttúrulega verið að gera mjög margt á landamærunum. Við erum bara að skoða það í hverju felst áhættan á að sleppa eða breyta hinu og þessu. Eins og staðan er núna held ég að það væri skynsamlegt að halda núverandi fyrirkomulagi eins lengi og mögulegt er en það getur vel verið að við verðum að grípa til einhverra annarra ráða fyrr eða síðar,“ segir Þórólfur.

Eruð þið komin með hugmyndir um hvernig er unnt að auka greiningargetuna?

„Það er ekki margt í stöðunni þar. Veirufræðideild Landspítalans er með þessar PCR-greiningar,“ segir Þórólfur.

Þórólfur leitar til Kára

„Svo hefur Íslensk erfðagreining mjög oft hlaupið undir bagga og bjargað mörgum hlutum. Við erum bara að skoða það. Nú, það er líka hugmynd hvort það eigi að taka upp aðrar greiningaraðferðir, hraðgreiningarpróf eða eitthvað slíkt. Að mínu mati eru þau ekki eins áreiðanleg og krefjast annarrar útfærslu heldur en PCR-vottorðin sem við erum búin að nota allan tímann, höfum mjög góða reynslu af og allt okkar kerfi byggir á, greiningarkerfi og söfnun upplýsinga. Þannig að við þurfum að fara mjög varlega í að breyta slíku kerfi en þetta er allt til skoðunar,“ segir Þórólfur.

Af orðum Þórólfs má ráða að viðræður standi yfir við Íslenska erfðagreiningu um aðstoð við sýnagreiningu. Samkvæmt heimildum fréttastofu er það svo. 

Fréttin hefur verið uppfærð