Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Ríki og borg gefa Hörpu flygil og útilistaverk

Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Geir Eyjólfsson - RÚV

Ríki og borg gefa Hörpu flygil og útilistaverk

13.05.2021 - 15:39

Höfundar

Harpa fær nýjan Steinway-konsertflygil og útilistaverkið Vindharpa sem varð til í samkeppni um útilistaverk við Hörpu 2008 verður sett upp á Hörputorgi. Þetta tilkynntu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í dag, á samkomu tíu árum eftir að Harpa var formlega opnuð.

Í vor var talað um að flygillinn í Hörpu væri orðinn of gamall til að hægt væri að nota hann á einleikstónleikum. Hann væri farinn að missa tóna og kominn væri tími á að nýr flygill yrði keyptur. Nú hefur verið ákveðið að nýr Steinway-flygill verði keyptur og greiða ríki og borg fyrir hann. Kostnaður við kaupin er metinn á 25 milljónir króna.

Jafnframt var ákveðið að verja 30 milljónum króna í að setja listaverkið Vindhörpu eftir Elínu Hansdóttur upp á Hörputorgi. Listaverkið varð til árið 2008 þegar samkeppni fór fram um list í opinberu rými í umhverfi Hörpu. Skömmu síðar hrundi efnahagskerfi landsins og ekkert varð úr því að listaverkið væri sett upp. Nú á hins vegar að setja það upp og er stefnt að því að það verði afhjúpað á Menningarnótt. Vindhörpu er lýst sem fagurlega formuðu hljóðfæri með strengjum sem virki vindinn sem hljóðgjafa.