Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

ÍBV lagði Stjörnuna í fyrri leik einvígisins

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

ÍBV lagði Stjörnuna í fyrri leik einvígisins

13.05.2021 - 15:00
ÍBV lagði Stjörnuna 21-17 í Vestmannaeyjum í fyrri leik liðanna í fyrstu umferð úrslitakeppni Olísdeildar kvenna í handbolta. Liðin mætast aftur á sunnudaginn kemur.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar og lítið skorað. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður voru heimakonur hins vegar með yfirhöndina og Harpa Valey Gylfadóttir kom ÍBV í 6-2. Heimakonur stýrðu leiknum út hálfleikinn og leiddu 10-6 í hálfleik.

ÍBV konur byrjuðu seinni hálfleikinn vel og komust fljótlega í átta marka forystu 15-7. Marta Wawrynkowska spilaði þar stórt hlutverk en hún átti stórleik í marki ÍBV og varði hvert skotið á fætur öðru. Þegar leið á seinni hálfleikinn tóku gestirnir úr Garðabænum tóku hins vegar við sér og Elísabet Gunnarsdóttir minnkaði muninn í þrjú mörk þegar stundarfjórðungur lifði leiks. ÍBV var hins vegar ekki á því að gefa leikinn frá sér og að lokum unnu þær fjögurra marka sigur 21-17.

Markahæstar í liði ÍBV voru Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Ásta Björk Júlíusdóttir með 6 mörk hvor. Þá varði Marta Wawrynkowska 11 skot og þar af tvö víti. Markahæst í liði Stjörnunnar var Helena Rut Örvarsdóttir með 6 mörk og Eva Björk Davíðsdóttir gerði fimm. Seinni leikur liðanna í einvíginu verður á heimavelli Stjörnunnar þann 16. maí.

Þá mætast Valur og Haukar í hinu einvígi fyrstu umferðar úrslitakeppninnar núna kl. 15:00.