Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ferðaþjónustan leggur komandi ríkisstjórn línurnar

Bláa lónið.
 Mynd: Harshil Gudka - Unsplash
Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt fram ellefu tillögur að aðgerðum stjórnvalda til að flýta fyrir endurreisn ferðaþjónustunnar og um leið viðspyrnu efnahagslífsins. Tillögunum er sérstaklega beint að þeirri ríkisstjórn sem tekur við í haust.

Auk tillagnanna ellefu hafa Samtök ferðaþjónustunnar opnað vefsíðuna viðspyrnan.is. þar má finna svokallað árangursmælaborð þar sem hægt verður að fylgjast með framgangi þeirra markmiða sem sett eru fram í vegvísinum. Tillögurnar fela meðal annars í sér að stjórnvöld bæti rekstrarumhverfi fyrirtækja, beiti sér fyrir úrlausn á skuldavanda fyrirtækja, auki fjármagn í markaðssetningu erlendis og efli uppbyggingu ferðamannastaða. Tekið er fram að kosningar eru á næsta leyti og standa vonir til þess að ný ríkisstjórn hrindi tillögunum í framkvæmd strax á upphafsdögum hennar.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að kallað hafi verið eftir hraðri viðspyrnu efnahagslífsins eftir faraldurinn og þetta sé framlag ferðaþjónustunnar. „Að sýna fram á með þessum tillögum hvað þarf í raun og veru að gera ef við viljum fá eins hraða viðspyrnu og við teljum unnt.“

Ferðamönnum er þegar tekið að fjölga og vísbendingar eru um að þeim muni fjölga hratt þegar líður á sumarið og ferðatakmörkunum aflétt. Því má spyrja hvort atvinnugreinin þurfi á ívilnunum að halda. „Ég myndi ekki kalla þetta ívilnanir. Í rekstrarumhverfi fyrirtækja til dæmis snýst um miklu meira en ferðaþjónustuna, það snýst um atvinnulífið í heild sinni. Þetta snýst um það að þó að við séum að byrja að sjá ferðamenn núna að þá mun það ekki bara gerast af sjálfu sér.“

Jóhannes segir að allar skýrslur um endurreisn efnahagslífsins geri ráð fyrir að ferðaþjónustan muni leiða endurreisnina. Þótt spár geri ráð fyrir um 700 þúsund ferðamönnum þá sé langt í að greinin nái fyrri styrk og mörg fyrirtækjanna eru illa stödd. Verði ekkert gert sé kostnaður meiri þegar upp er staðið. „Ferðaþjónustan er sú grein sem getur hraðast unnið okkur upp úr þessu. Það þýðir ekki að ferðaþjónustan eigi að taka yfir allt efnahagslífið. Alls ekki.“

Magnús Geir Eyjólfsson