Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Atlantic Airways hefur áætlunarflug til Íslands

Jóhanna á Bergi, forstjóri Atlantic Airways.
 Mynd: Atlantic Airways
Færeyska flugfélagið Atlantic Airways hyggst hefja áætlunarflug til Íslands og Skotlands eftir að tilkynning barst í síðustu viku um að Færeyjar yrðu fjarlægðar af rauðum listum beggja landa.

Með því þarf ferðafólk ekki að fara í sóttkví eftir ferðalag til eyjanna.

Jóhanna á Bergi, forstjóri flugfélagsins, upplýsti í samtali við færeyska fréttamiðilinn Portal.fo að til standi að hefja ferðir til Íslands 18. júní næstkomandi og til Edinborgar í Skotlandi 1. júlí.

Þrátt fyrir að ekki þurfi að dvelja í sóttkví við komuna frá Færeyjum er fólk sem þangað fer hvatt til að halda sig til hlés í fjóra daga eftir komuna þangað.

Nokkur ný smit í Færeyjum

Ekkert innanlandssmit greindist í Færeyjum frá 25. janúar til 5. maí en þann dag tilkynntu heilbrigðisyfirvöld um þrjú ný smit.

Öll voru af breska afbrigði veirunnar og smitið barst með manni sem nýkominn var til eyjanna frá útlöndum. Ríflega 100 hafa þurft að dvelja í sóttkví vegna smitsins en aðeins eitt nýtt smit hefur verið tilkynnt, þann 11. maí.