Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

6.500 tóku þátt í hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar

13.05.2021 - 12:52
Mynd með færslu
Athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Neskaupstað Mynd:
Hlutabréf í Síldarvinnslunni seldust fyrir 29,7 milljarða í hlutafjárútboði fyrirtækisins sem lauk í gær. Alls skráðu sig 6.500 fjárfestar og einstaklingar fyrir áskrift að hlutabréfum að andvirði um 60 milljarða króna. Það var því ríflega tvöfalt meiri eftirspurn eftir hlutabréfunum en nam endanlegri sölu þeirra.

Upphaflega stóð til að selja 447,6 milljónir af 1.700 milljón hlutum í Síldarvinnslunni. Seljendur bættu hins vegar við 51 milljón hluta í útboðinu, samkvæmt heimild sem þeir höfðu til þess. 29,3 prósent hlutafjár í Síldarvinnslunni skiptu um hendur í útboðinu.

Útboðið er upptaktur að því að Síldarvinnslan verður skráð á markað í kauphöllinni. Áætlað er að viðskipti með hlutabréfin hefjist eftir tvær vikur, 27. maí. Það er viku eftir að þeir sem skráðu sig verða að greiða kaupverðið og degi eftir að þeir fá hlutabréfin afhent. 

Samkvæmt tilkynningu á vef Síldarvinnslunnar eru hluthafar í fyrirtækinu nú orðnir tæplega 7.000 talsins.