Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Uppfærslan auðveldar rakningu þegar tengsl eru óþekkt

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Smitrakningarapp embættis landlæknis og almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra, Rakning C-19, hefur verið uppfært og nýtir nú Bluetooth-virkni snjalltækja til að styðja við rakningu smita.

Frá og með deginum í dag er hægt að sækja nýja uppfærslu á appinu. Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis segir að appið hafi skipt sköpum í viðureigninni við kórónuveirufaraldurinn innanlands.

Alma Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í morgun að uppfærsla appsins geri kleift að finna smit þar sem tengsl fólks eru ekki þekkt og þegar smit kemur upp í fjölmenni.

„Þetta gerir Bluetooth-tæknin mögulegt án þess að gefa afslátt á vernd persónuupplýsinga og öryggi.“ Áfram verða öll gögn vistuð á símtækinu sjálfu, hvorki á skýi né í gagnagrunni og eru geymd 14 daga aftur í tímann.

„Smitrakning verður ekki sjálfvirk heldur er hún viðbót við núverandi aðgerðir,“ sagði Alma. Hún sagði fjölmörg Evrópuríki nota samskonar app, þar á meðal Þýskaland, Noregur, Írland og Finnland.

Alma fór yfir hvernig ætti að uppfæra appið. „Nú þurfa allir að uppfæra appið og eftir að það hefur verið gert þarf að kveikja á upplýsingum um hugsanleg smit.“ Appið er á íslensku, ensku og pólsku.

Appið vinnur í bakgrunni í símanum og skiptist á ópersónugreinanlegum auðkennum við aðra síma í námunda. Greinist fólk með COVID-19 getur smitrakningateymið óskað eftir að fá auðkennin send til sín og þá er hægt að vara aðra við að þeir séu hugsanlega útsettir fyrir smiti.

Þá leiðbeinir appið um skráningu í smitgát með símaanúmeri og útfyllingu í ákveðna reiti. Þá er einnig sent strikamerki fyrir skimun í símann. Alma sagði skráninguna vera ákvörðun hvers og eins og ætlunin sé að viðkomandi geti hugað að einstaklingsbundnum sóttvörnum og minnkað samneyti við aðra.

„Áfram ákveður rakningarteymi hverjir þurfi að fara í sóttkví.“ Appið var þróað af sérfræðingum hjá embætti landlæknis, gerð á því öryggisúttekt og mat persónuverndar fengið.

Alma sagði að Bluetooth rakning væri sérstaklega mikilvægt á þessum tíma enda samfélagið væri að opnast. Jafnframt að áríðandi væri að sem flestir sæktu það og biðlaði sérstaklega til unga fólksins að vera með.

Einkar mikilvægt sé að smitrakning verði áfram skilvirk og árangursrík nú þegar margir hafi fengið bólusetningu og að frekari opnun samfélagsins sé fyrirsjáanleg. 

Fyrirsjáanlegt sé að breytingar til að mynda varðandi aðgerðir innanlands og á landamærum geri smitrakningu flóknari. Ný útgáfa appsins Rakning C-19 sé liður í að auðvelda þá vinnu.