Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Það eru engar heimildir fyrir þessum refsingum“

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Það er með ólíkindum hvernig komið er fram við skjólstæðinga á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans. Þetta segir formaður Geðhjálpar um það sem fram kemur í gögnum sem Embætti landlæknis hefur nú til skoðunar. Hann segir að ofbeldið, refsikúltúr og starfsandinn á deildunum sé það alvarlegasta sem fram kemur í gögnunum.

Embætti landlæknis hefur til athugunar alvarlegar ábendingar um slæman aðbúnað á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans. Þar er meðal annars lýst ofbeldi, lyfjaþvingunum og margvíslegum samskiptavanda.

Landlæknisembættið segist taka erindið alvarlega og hefur farið í vettvangsheimsóknir á deildirnar. Landspítalinn hefur tekið viðtöl við fjölda starfsmanna vegna málsins.

„Dálítið sjokkeraðir“

Ábendingarnar koma frá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum á deildunum. Þeir leituðu til Geðhjálpar sem ákvað að senda greinargerð til Landlæknisembættisins.

„Í fyrsta lagi finnst okkur dálítið sérstakt að starfsmenn Landspítalans leiti til Geðhjálpar með að hluta til starfsmannamál og að hluta til sneri þetta að sjálfsögðu að skjólstæðingum,“ segir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar. „Við sendum í kjölfarið greinargerð til landlæknis varðandi það sem snýr að skjólstæðingunum og svo til spítalans vegna starfsmannamálanna sem komu okkur ekki beint við. En eftir að hafa hlustað á starfsmennina og fyrrverandi starfsmenn sem komu til okkar, þá vorum við dálítið sjokkeraðir yfir þessum lýsingum þeirra yfir svona langan tíma, þegar þeir komu til okkar síðasta vetur.“ 

Ábendingarnar voru meðal annars teknar saman eftir umfjöllun um vistheimilið Arnarholt í nóvember í fyrra, sem Héðinn segir að hafi haft mikil áhrif.

„Ég held að það hafi kveikt á viðbrögðum starfsmannanna, og fengið þá til þess að stíga fram. Þeir voru búnir að tala við spítalann og leita einhverra leiða og enda svo á að koma til okkar. Og það sem við gerum er að setja þetta í farveg, annars vegar fyrir hönd skjólstæðinganna, þá með erindi til Landlæknisembættisins sem við sendum strax inn, og svo ræddum við við forsvarsmenn spítalans.“

Engar heimildir

Héðinn segir að margt mjög alvarlegt komi fram í ábendingum starfsmannanna.

„Ofbeldið, klárlega, og starfsandinn þarna á deildinni og lýsingar þeirra á samskiptum starfsmanna og svo hvernig komið er fram við skjólstæðinga. Þessi refsikúltúr, að taka af, og refsa með alls kyns hætti. Það eru engar heimildir fyrir þessum refsingum og það er með ólíkindum hvernig komið er fram við skjólstæðinga, ef rétt reynist.“

Sýnist ykkur að þarna séu framin lögbrot?

„Ja, klárlega eru þarna lög undir eins og lög um réttindi sjúklinga, lögræðislögin, hegningarlög klárlega, sem snúa að skjólstæðingunum. Og svo bara vinnulöggjöfin, hvað varðar samskipti starfsmanna og starfsanda virðist vera.“

Bitnar þessi staða á ykkar skjólstæðingum hjá Geðhjálp?

„Já klárlega. Eins og ég segi, þá eru þetta þeir sem eru með fæstu talsmennina. Og veikasti hópurinn er þarna inni á þessum tveimur deildum.“

Alltaf að læra af fortíðinni

Nú virðist ítrekað hafa verið kvartað yfir þessari stöðu við yfirstjórn Landspítalans í gegnum árin. Hvað finnst þér um það?

„Mér finnst það svolítið sérstakt að spítalinn hafi ekki brugðist við þessum umkvörtunum starfsmannanna, vegna þess að þær virðast hafa verið í gangi í allmörg ár. Eitthvað hefur gerst, það hafa verið fengnir inn ráðgjafar til þess að reyna að leysa mál og vinna með samskiptin og þar fram eftir götunum, en ekki skilað meiru en raun ber vitni. Af því að ég lít svo á að þetta sé síðasta hálmstrá starfsmanna, að leita til félags eins og Geðhjálpar.“

Héðinn vonar að þetta mál verði til þess að þjónusta við skjólstæðinga Geðhjálpar verði betri í framtíðinni.

„Og það er einhvern veginn svo sorglegt að við séum alltaf að læra af fortíðinni og jafnvel að einhverju leyti að gera það aftur, sem við erum að gagnrýna að hefur verið gert áður. Við horfum náttúrulega til þessarar rannsóknar sem á að fara fram á geðheilbrigðismálum aftur í tímann, sem þingið eða framkvæmdavaldið ætlar að framkvæma eftir Arnarholts-málið. Þannig að við vonumst til þess að það verði einhverjar breytingar þarna á,“ segir Héðinn.