Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjúklingar lokaðir inni á herbergi svo mánuðum skiptir

12.05.2021 - 20:02
Dæmi er um að sjúklingar á Kleppspítala, öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans, hafi verið lokaðir inni á herbergjum sínum svo vikum og mánuðum skiptir. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir að meðferðarkúltúr í geðlæknisfræðum virðist byggja á því að sýna völd.

Greint var frá því í sjónvarpsfréttum að embætti landlæknis hefur til athugunar alvarlegar ábendingar um slæman aðbúnað á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans. Ábendingarnar koma frá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum á deildunum. Þar er meðal annars lýst ofbeldi, lyfjaþvingun og margvíslegum samskiptavanda. Samkvæmt lýsingu starfsmanna brugðust stjórnendur spítalans ekki við áhyggjum starfsfólks með nægilega vönduðum hætti og leitaði starfsfólk því til Geðhjálpar sem gerði Landlækni viðvart. 

„Það sem kom þarna fram er mjög alvarlegt,“ sagði Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, í Kastljósi í kvöld. Hann sagði að lýsingar bendi til þess að greinilega hafi verið brotið á mannréttindum sjúklinga. 

„Þarna er verið að lýsa niðurlægjandi aðferðum við ýmislegt sem kallast meðferð, en er ekkert nema ofbeldi,“ sagði Grímur og tók dæmi um að sjúklingar hafi verið lokaðir inni á herbergjum sínum svo vikum og mánuðum skiptir.

„Já, það kemur fram í þessu. Það virðist vera að þessi meðferðarkúltúr á Íslandi byggir að einhverju leyti á að þurfa að sýna einhver völd. Það teljum við að eigi frekar heima inni í bíómyndum sem við horfum á og erum að hneykslast yfir. Nútíminn á ekki að vera þarna,“ sagði Grímur.

„Við þurfum að fara að horfa á nútímann með augum framtíðarinnar. Er það þetta sem við viljum að eftir 30-40 ár verði horft til okkar og sagt: Þetta var fólk að gera árið 2021,“ sagði Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.

Kastljós kvöldsins má sjá í heild í spilaranum hér að ofan.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV