Lyfjaþvinganir, ofbeldi og ógnarstjórnun

Landlæknir og Landspítalinn skoða alvarlegar ábendingar um aðbúnað á geðdeildum
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Embætti landlæknis hefur til athugunar alvarlegar ábendingar um slæman aðbúnað á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans. Þar er meðal annars lýst ofbeldi, lyfjaþvingunum, ógnarstjórnun og miklum samskiptavanda. Ábendingarnar koma frá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum. Þær voru meðal annars teknar saman í kjölfar umfjöllunar um vistheimilið Arnarholt. Landlæknisembættið hefur farið í vettvangsheimsóknir vegna málsins og Landspítalinn hefur tekið viðtöl við fjölda starfsmanna.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í ítarlegum vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld. RÚV sagði frá því sem fram kom í vitnaleiðslunum í fréttum í nóvember í fyrra.

Eftir þá umfjöllun fjölgaði mjög ábendingum til Geðhjálpar, um misbrest í þjónustu og aðbúnaði fólks á öryggis- og réttargeðdeildum Landspítalans. Ábendingarnar eru meðal annars frá núverandi og fyrrverandi starfsmönnum á deildunum.

Í ljósi þess ákvað Geðhjálp, í samvinnu við og með vitneskju að minnsta kosti átta fyrrverandi og núverandi starfsmanna á deildunum, að taka saman greinargerð um ástandið á deildunum, og senda til embættis landlæknis ásamt frásögnum starfsmannanna.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Öryggis- og réttargeðdeildirnar eru báðar til húsa á Kleppi. Sjúklingar sem þar dvelja eiga það allir sameiginlegt að vera ekki frjálsir ferða sinna. Á heimasíðu Landspítalans segir eftirfarandi um þessar deildir:

Öryggisgeðdeild er sérhæfð deild fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga. Þetta er meðferðardeild sem sinnir fólki sem þarf á sérhæfðri langtímameðferð að halda og hefur ekki getað nýtt sér önnur úrræði geðsviðs.

Réttargeðdeild er sérhæfð geðdeild sem hefur það hlutverk að meðhöndla ósakhæfa geðsjúka einstaklinga og endurhæfa þá aftur út í samfélagið.

Tjá sig ekki

Geðhjálp sendi erindið til embættis landlæknis í lok nóvember. Í skriflegu svari til fréttastofu staðfestir embættið að erindið hafi borist.

Embætti landlæknis hefur erindið til meðferðar og það er unnið að því með markvissum hætti,

segir í svarinu.

Þegar spurt er til hvaða aðgerða embættið hafi gripið vegna málsins er svarið: 

Embætti landlæknis hefur erindið til meðferðar og hefur átt nokkra fundi með Landspítala, m.a. til að afla upplýsinga, auk þess hafa fulltrúar embættisins farið í vettvangsheimsóknir í tengslum við þetta mál.

Loks segir:

Embættið tekur öll slík erindi alvarlega og tekur til meðferðar.

Í svari Önnu Sigrúnar Baldursdóttir, aðstoðarmanns forstjóra Landspítalans, við fyrirspurn fréttastofu, segir aðeins:

Þetta mál er enn til skoðunar hjá embætti landlæknis og hér hjá okkur. Á meðan svo er mun spítalinn ekki tjá sig um málið.

Þegar óskað var viðbragða Nönnu Briem, forstöðumanns geðþjónustu Landspítalans, var svarið:

Við munum ekki tjá okkur um umrætt mál.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

En hvað er það sem kemur fram í samantekt Geðhjálpar sem embætti landlæknis hefur undir höndum?

Þar segir meðal annars að mörg þeirra atvika sem tíunduð eru geti varðað við lög, meðal annars lög um réttindi sjúklinga þar sem fjallað er um meðferð, mannhelgi, rétt til upplýsinga, réttinn til að hafna meðferð og lögræðislög þar sem fjallað er um þvingaða lyfjagjöf. Þá lýsa starfsmenn þrúgandi andrúmslofti á deildunum tveimur, og að því er virðist ítrekuðum brotum á réttindum sjúklinganna. Þeir séu meðal annars geymdir inni á deild í marga mánuði á grundvelli þess að úrræðin sem eru í boði fyrir þá neiti að taka við þeim.

Fram kemur í greinargerðinni að sjúklingar séu beittir þvingunum og refsingum með ýmsum aðferðum sem brjóti í bága við 28. grein lögræðislaga um bann við þvingaðri meðferð. Þá séu sjúklingar læstir á gangavist, nauðungarsprautaðir og eftir atvikum læstir inni á öryggisherbergi svo dögum skiptir, ef þeir gerast sekir um að brjóta reglur á deildunum.

Fylgdust með í myndavélakerfi

Þá er staðhæft í frásögnum starfsmannanna að hættulegar aðferðir séu notaðar á sjúklinga þegar þeir eru beittir þvingaðri lyfjagjöf með þeim afleiðingum að bæði þeir sjálfir og starfsfólk slasist við atvikin. Þá er því einnig lýst hvernig nauðungarsprautanir séu daglegt brauð á deildunum. Margar þeirra séu ekki skráðar niður, en samkvæmt lögræðislögum og lögum um réttindi sjúklinga beri að skrá slík tilvik.

Mikið um fjötranir með geðrofslyfjum. Ekki hikað við að gefa nauðungarsprautur með geðrofslyfjum með meðfylgjandi gríðarlegri vanlíðan fólks. Ég man eftir þegar það komu nemar frá að mig minnir Borgarholtsskóla og fylgdust spennt með í myndavélakerfinu þegar deildarstjóri og þáverandi aðstoðardeildarstjóri ásamt varnarteymi sprautuðu sjúkling. Sjúklingur ekki látinn vita að það væri hópur utanaðkomandi fólks að fylgjast með í myndavélunum,

er haft eftir starfsmanni í greinargerðinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV

Þá kemur fram að dvöl sjúklinga sé bæði einhæf og tilbreytingarlaus og að þeir hafi lítið sem ekkert fyrir stafni, og því séu deildirnar ekkert annað en geymslustaðir, þar sem engin endurhæfing eigi sér stað. Sjúklingar fái þannig ekki að vinna eða stunda nám.

Þá segir að sjúklingar séu beittir refsingum og líkamlegu ofbeldi:

Sjúklingar eru að okkar mati beittir þvingunum eða refsingum fyrir að sinna ekki vissum hlutum, eins og t.d. persónulegu hreinlæti. Látnir vera dögum saman í herbergisvist, þ.e. mega ekki koma fram af herbergi nema til að fara á salerni, þar til þeir fást til að fara í sturtu.

Þá hafi starfsmenn oft orðið fyrir líkamsárásum af völdum sjúklinga deildanna, en ekkert utanumhald eða stuðningur hafi verið í boði fyrir starfsfólk eftir þær þær uppákomur.

Ítrekaðar kvartanir

Fram kemur í  samantekt Geðhjálpar, sem fylgir erindi samtakanna til landlæknis, að frásagnir starfsmanna gefi til kynna að ógnarstjórnun sé ítrekað beitt og að framkoma gagnvart þeim sé slæm og að réttindi þeirra séu ekki virt. Í greinargerðinni eru einnig lýsingar á mjög slæmum starfsanda á deildunum og andlegu ofbeldi í garð starfsmanna.

Þá kemur fram að mikil starfsmannavelta hafi verið á meðal hjúkrunarfræðinga á deildunum, og að nú sé svo komið að mikill meirihluti hjúkrunarfræðinga á deildunum séu útlendingar.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að starfsfólk á öryggis- og réttargeðdeild Landspítalans hafi á undanförnum árum ítrekað kvartað við yfirmenn spítalans yfir þeim atriðum sem hér hafa verið nefnd, bæði á fundum og með skriflegum erindum. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans tekið viðtöl við flesta ef ekki alla starfsmenn á deildunum, síðan embætti landlæknis hóf sína athugun á málinu. Mörg viðtalanna fóru fram í mars. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu kvörtuðu margir starfsmenn yfir ástandinu á deildunum í þeim viðtölum.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
12.05.2021 - 19:16