Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Kom í dagsferð frá Bandaríkjunum til að sjá gosið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Fjölga á starfsmönnum í skimun og vottorðaskoðun á Keflavíkurflugvelli, en aukinn þungi er að færast í komu ferðamanna hingað til lands. Níu vélar eru væntanlegar hingað á morgun. Bandarískur ferðamaður sem kom hingað til lands í dagsferð til að sjá eldgosið í Geldingadölum fór fýluferð.

Um helgina var spænskum ferðamönnum snúið við á Keflavíkurflugvelli á grundvelli reglugerðar dómsmálaráðherra sem leggur bann við ónauðsynlegum ferðum. Arngrímur Guðmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild Lögreglunnar á Suðurnesjum segir að ekki hafi fleiri slík tilvik komið upp, en nokkuð sé um að ferðamenn hafi ekki kynnt sér þær reglur sem gilda um komu ferðamanna. 

„Við fengum hérna fyrir 2-3 dögum bjartsýnan amerískan ferðamann sem hafði pantað sér ferð heim sama daginn, aftur til Bandaríkjanna. Hann ætlaði að kíkja á eldgosið hjá okkur hérna suður með sjó. En hann hafði ekki áttað sig á því að hann þurfti að bíða þangað til niðurstöður úr sýnatöku liggja fyrir og þá voru ansi fáir klukkutímar í það að rölta upp á Fagradalsfjall og kíkja á eldgosið. Þannig að hann fór nú heim með flugi til Bandaríkjanna sama dag og vonandi að hann hafi fundið einhverjar myndir af gosinu til að taka með sér.“

Bandaríkjamaðurinn var bólusettur og mátti því koma til landsins. „En hann áttaði sig ekki á því að dagur dygði ekki því að fólk þarf að bíða eftir því að fá niðurstöður úr sýnatökum. Það geta verið fjórir til sex/átta tímar þar til niðurstöður liggja fyrir og á meðan verða farþegar að halda kyrru fyrir.“

Maðurinn dvaldi því í flugstöðinni og á sóttkvíarhóteli við flugvöllinn þangað til hann sneri aftur til síns heima.

Von á níu vélum á morgun

Umferð um flugvöllinn er að aukast og von er á níu vélum á morgun. Síðar í þessum mánuði stendur til að fjölga vinnustöðvum fyrir sýnatöku og skoðun á vottorðum en þær eru nú átta. „Það er  verið að fjölga þeim upp í 18 vinnustöðvar þannig að afköstin ættu að aukast talsvert við það,“ segir Arngrímur.

Hann segir að til standi að fjölga í hópi þeirra starfsmanna  sem sinna sýnatöku og skoðun á vottorðum. Endanleg tala um fjölgun liggi ekki fyrir, en ljóst sé að fjölga þurfi starfsmönnum um nokkra tugi.