Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Karadzic færður í fangelsi í Bretlandi

12.05.2021 - 15:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtogi Bosníu-Serba, verður fluttur frá Haag í Hollandi til Bretlands þar sem hann á að afplána lífstíðarfangelsi sem hann hlaut fyrir stríðsglæpi, þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni á dögum Balkanstríðsins.  

Karadzic hlaut lífstíðardóm á útmánuðum 2019 og hefur verið í haldi í Haag síðan. Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, tilkynnti í dag að hann yrði í bresku fangelsi það sem eftir er.

Raab sagði að Bretar hefðu síðastliðin þrjátíu ár stutt framgang þess að Karadzic yrði látinn gjalda fyrir þá svívirðilegu glæpi sem hann hefði gerst sekur um í Bosníustríðinu. Radovan Karadzic væri einn fárra sem hefði hlotið dóm fyrir þjóðarmorð. Hann hefði staðið á bak við að karlar, konur og börn voru myrt í bænum Srebrenica og lagt sitt af mörkum í umsátrinu um Sarajevo þar sem ráðist var á fólk af vægðarlausri hörku. 

Herlið Bosníu-Serba myrti yfir átta þúsund drengi og fullorðna karlmenn nokkrum dögum eftir að það lagði Srebrenica undir sig. Alls er talið að hundrað þúsund manns hafi látið lífið í stríði Króata, Serba og múslima í Bosníu á árunum 1992 til '95. 

Karadzic og Ratko Mladic, hershöfðingi hans, voru meðal þeirra síðustu sem réttað var yfir í Stríðsglæpadómstólnum fyrir fyrrum Júgóslavíu.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV