Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

KA-menn byrja mótið af krafti

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

KA-menn byrja mótið af krafti

12.05.2021 - 19:28
Þriðja umferð úrvalsdeildar karla í fótbolta hófst í dag með tveimur leikjum. Fylkir tekur á móti KR í Árbæ í leik sem byrjaði 19:15 en KA tók á móti Leikni nú síðdegis á Dalvíkurvelli.

Flytja þurfti leikinn á gervigrasið á Dalvík þar sem grasið á Greifavelli, heimavelli KA, er ekki komið í nægilega gott stand. KA og Leiknir voru bæði taplaus eftir fyrstu tvær umferðirnar, KA með fjögur stig og Leiknir með tvö.

Á 15. mínútu var Steinþór Freyr Þorsteinsson felldur í vítateig Leiknis og Vilhjálmur Alvar dómari leiksins dæmdi vítaspyrnu. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók vítið, skoraði af öryggi og kom KA í 1-0 og þannig stóð í hálfleik.

Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik fékk KA aftur dæmda vítaspyrnu þegar brotið var á Hauki Heiðari Haukssyni. Aftur stillti Hallgrímur Mar boltanum upp á vítapunktinum og skoraði, hans fjórða mark í síðustu tveimur leikjum.

KA menn voru hvergi nærri hættir því á 70. mínútu tók Hallgrímur Mar hornspyrnu og eftir smá klafs í teignum rataði boltinn á Ásgeir Sigurgeirsson sem kom honum í markið, 3-0. Ekki batnaði staða nýliða Leiknis þegar Octavio Paez fékk beint rautt spjald þegar tæklaði Kára Gautason illa.

3-0 reyndust lokatölur á Dalvíkurvelli og KA tyllir sér á topp deildarinnar um stund, nú með sjö stig.