Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íslensk börn eru síður í tómstundastarfi

12.05.2021 - 13:25
Innlent · Börn · Fátækt · UNICEF
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikilvægt er að gera langtímaáætlanir um að jafna aðstæður barna í efnahagslægðum því áhrifin geti verið lengi að koma fram. Staða íslenskra barna er almennt góð en þau eiga síður kost á að taka þátt í tómstundastarfi en börn í öðrum Evrópulöndum. Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri skýrslu Unicef á Íslandi um efnislegan skort barna. 

Í skýrslunni var staða barna árið 2018 borin saman við árin 2009 og 2014. Skoðað var meðal annars hvort börn fengju að minnsta kosti eina máltíð á dag, ættu tvö pör af skóm og föt sem enginn annar hefði notað áður. Þá er miðað við hvort haldið sé upp á afmæli, hvort barnið búi í viðunandi húsnæði og hvort það taki þátt í tómstundastarfi.

Eva Bjarnadóttir verkefnastjóri hjá Unicef og höfundur skýrslunnar segir að staða barna hér á landi sé góð í alþjóðlegum samanburði. „En það er ákveðinn hópur barna sem tapar þegar það er kreppa en græðir ekki mikið á góðærinu. Sem segir okkur að það er ójöfnuður meðal barna á Íslandi.“

Ísland er það Evrópuland þar sem efnislegur skortur barna mælist sjöundi minnsti og staðan er best hvað varðar menntun. Staðan er verst hvað varðar þátttöku í tómstundum, 17% íslenskra barna mælast með skort á því sviði og Ísland er þar í 19. sæti af 31 Evrópulandi. Eva segir að þetta háa hlutfall barna sem skortir tómstundir á Íslandi komi á óvart.

Það þarf að horfa til lengri tíma

Eva segir að skýrslan sýni að sveiflur í efnahagslífinu hafi mjög víðtæk áhrif á börn.  „Og þau áhrif geta verið lengi að koma fram. Þess vegna þarf að horfa til lengri tíma þegar það er verið að bregðast við efnahagskreppum.“

Hvaða lærdóm væri hægt að draga af þessu, núna þegar við erum í annarri kreppu sem tengist COVID? „Það má draga þann lærdóm að það þarf að greina sérstaklega stöðu barna og áhrif kreppu á börn. Og skoða hvaða hópar það eru sem verða verst úti og beina aðstoð þangað til þess að jafna tækifæri barna og það þarf að líta til lengri tíma þgar kemur að börnum því það getur verið að áhrif birtist ekki fyrr en nokkrum árum eftir að kreppan skellur á.“

Meðal tillagna Unicef á Íslandi til að bregðast við þessari stöðu eru:

  • Boðið verði upp á fjölbreytt úrræði í tómstundastarfi óháð fjárhag foreldra.
  • Aðstoð beinist að þeim börnum sem mest þurfa á henni að halda.
  • Aukin barnmiðuð upplýsingasöfnun og greining.
  • Aðgerðir gegn fátækt og ójöfnuði – hagsmunir barna verði hafðir í fyrirrúmi við gerð fjárlaga og fjárhagsáætlana sveitarfélaga.