Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hvaða kjaftæði er þetta NFT?

12.05.2021 - 12:38
Erlent · Hádegið · NFT · Örskýring
Mynd: Dave Roth / -
Þegar fjölskyldufaðirinn Dave Roth smellti mynd af dóttur sinni, hinni fjögurra ára Zoë, fyrir framan brennandi hús árið 2005 bjóst hann örugglega ekki við því að myndin yrði síðar mikill örlagavaldur í lífi þeirra.

Myndin sýnir Zoë glottandi á meðan húsið brennur í bakgrunni og það er engu líkara en að hún hafi kveikt í húsinu. Það stóð hins vegar til að rífa húsið og um skipulagða íkveikju brunavarna á svæðinu var að ræða. Djöfullegt glott ungu stúlkunnar var því eflaust tilviljun. 

Myndin fór á flug á internetinu tveimur árum síðar og varð svokallað „meme“ — hugtak sem notað er yfir myndir sem fólk notar til að koma einhvers konar gríni á framfæri á samfélagsmiðlum. Í dag er Zoë Roth á leiðinni í háskóla og hefur selt umrædda mynd á 473 þúsund dali, um 59 milljónir króna, til að greiða fyrir námið.

NFT var örskýrt í Hádeginu á Rás 1. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

En bíðum hæg. Hvernig selur maður mynd sem allir í heiminum geta skoðað, halað niður og dreift að vild? — mynd sem hefur verið á ferðinni um internetið í meira en áratug og þúsundir hafa þegar dreift án þess að greiða fyrir það krónu. Svarið er NFT og ég ætla að reyna að örskýra þetta kjaftæði fyrir ykkur.

NFT stendur fyrir „non-fungible token“ — einstakt, stafrænt skírteini á mjög einföldu máli. Hugmyndin með þessu skírteini er að staðfesta eignarhald á myndum, myndböndum, hljóðum og öðrum stafrænum gögnum. NFT notar svokallaðar bálkakeðjur (e. blockchain) sem er sama tækni og er á bak við rafmyntir á borð við bitcoin. Við örskýrum bálkakeðjur seinna.

Fyrrnefnd Zoë Roth seldi sem sagt myndina af sjálfri sér á NFT-formi og tryggði þannig kaupandanum upprunalegu myndina. Til að líkja þessu við eitthvað sem við þekkjum, þá geta allir keypt plakat með prentuðu verki eftir Kjarval en aðeins eitt eintak er til af upprunalegu myndinni.

Áður en lengra er haldið vil ég að það sé á hreinu að það er mjög eðlilegt að finnast þetta vera algjört rugl. Þetta er algjört rugl. NFT var varla til fyrir tveimur árum en veltir í dag milljörðum fyrir tilstilli fólks sem á augljóslega of mikið af peningum. 

Á síðustu mánuðum hefur orðið til markaður með stafræna list á NFT-formi. Verk eftir listamanninn Beeble seldist til að mynda á 69 milljónir dala á uppboði uppboðshússins Christie's. En það selst líka ýmislegt annað. Einhver borgaði 390 þúsund dali fyrir 50 sekúndna myndband af tónlistarkonunni Grimes og stofnandi Twitter seldi tíst á tæplega þrjár milljónir dala.

En hver sem er getur vistað hvaða mynd sem er í tölvuna sína — hvernig geymir maður þá mynd á NFT-formi?

Safnarar geyma listina í sérstökum stafrænum veskjum en eins og ég segi: NFT er nýtt af nálinni og enn á nokkurs konar tilraunastigi. Það er því vissara að taka tækninni með fyrirvara. Enginn veit hversu mikils virði listin verður í framtíðinni. 

En hvað með lagalegu hliðina? Fylgir höfundarétturinn með?

Nei. Þegar einhver kaupir listaverk á NFT-formi er höfundarétturinn enn þá listamannsins. Kaupandinn má því ekki afrita verkið eða hagnast á því með einhverjum hætti.

Þetta er nú meira ruglið. Og hvað gerist næst?

Það veit ég ekki. Til að prófa þessa tækni setti ég upp stafrænt veski og bauð til sölu tíst á Twitter á sérstöku NFT-sölutorgi. Þetta var mitt besta tíst hingað til og mér fannst því 10 þúsund dalir, um 1,2 milljónir króna, sanngjarnt verð. 

Enn sem komið er hefur enginn bitið á agnið.

atlifb's picture
Atli Fannar Bjarkason