Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hraunrennslið nærri 13 rúmmetrar á sekúndu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýjustu mælingar og gögn gefa til kynna að á síðustu dögum hafi kvikuflæði aukist frá eldstöðvunum við Fagradalsfjall og að hraunrennslið sé nú nærri 13 rúmmetrar á sekúndu. Með aukinni gosvirkni má búast við meiri gasmengun.

Vísindaráð almannavarna fundaði í dag. Í tilkynningu frá ráðinu kemur fram að flatarmál hraunsins er nú 1,78 ferkílómetrar og rúmmál hraunsins sem runnið hefur mælist 30,7 milljónir rúmmetra. Gera verður ráð fyrir að auknu kvikuflæði fylgi aukið útstreymi gastegunda.

Á undanförnum dögum hefur verið mikil kvikustrókavirkni í eldgosinu. Ef kvikustrókar ná 300 metra hæð og vindur er þrettán til fimmtán metrar á sekúndu má búast við hraunbombum í allt að 600 metra fjarlægð frá gígnum. Glóandi slettur kveikja í mosa og gróðri sem þær lenda á og í reyknum er mikið af kolmónoxíði sem er eitrað og hættulegt fólki. Stundum mælist það mikið af kolmónoxíði í reyknum af gróðurbrunanum að slökkviliðsmenn myndu nota reykköfunartæki ef þeir ætluðu inn á svæðið.