Heimsfaraldur með heljartök á leikfélagi

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV/Landinn

Heimsfaraldur með heljartök á leikfélagi

12.05.2021 - 17:02

Höfundar

„Ég var að horfa á sjónvarpsþáttinn Veröld sem var og þar var meðal annars verið að fjalla um óskalög sjómanna, þannig fékk ég þessa hugmynd að taka vinsæl dægurlög, sjómannalög, og semja í kringum þau verk," segir Pétur Guðjónsson leikstjóri og höfundur. Úr þessari hugmynd hans varð leikritið „Á frívaktinni“ sem til stóð að frumsýna um síðustu helgi hjá leikfélagi Sauðárkróks.

„Þetta er búið að vera óvenjulegt æfingatímabil, " segir Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, formaður leikfélags Sauðárkróks. „Við byrjuðum að æfa fyrir rúmu ári síðan og svo varð að stoppa út af covid og svo var farið af stað aftur og stoppað aftur og þannig hefur þetta gengið. Við erum búin að æfa i litlum hópum og með grímur og við höfum þurft að skipta um leikara og allt mögulegt. Við höfum hinsvegar ekki gefist upp og nú er þetta loks að koma," sagði Sigurlaug.

Og það kom loksins, það tókst að frumsýna en daginn eftir var öllu skellt í lás í Skagafirði og ekki liggur fyrir hvenær sýningar geta haldið áfram.