Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hafa varann á sér gagnvart Samherja

Mynd: RÚV / RÚV
Sjávarútvegsráðherra Noregs segir breiða pólitíska samstöðu um að koma í veg fyrir að Samherji og önnur erlend sjávarútvegsfyrirtæki sölsi til sín kvóta. Þess vegna sé verið að herða eftirlit með eignarhaldi erlendra fyrirtækja í norskum sjávarútvegi.

Norska sjávarútvegsráðuneytið boðaði um helgina stórhert eftirlit með erlendum fjárfestingum í sjávarútvegi. Það var gert eftir að Samherji keypti 40 prósenta hlut í útgerðarfyrirtækinu Eskoy fyrr á þessu ári. Í yfirlýsingu ráðuneytisins sem birt var um helgina var ekki farið leynt með það að aðgerðunum væri beint gegn fjárfestingu Samherja. Fyrir á Samherji 39,9 prósenta hlut í útgerðinni Nergard og Baldvin Þorsteinsson situr í stjórn þess.

Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs, segir markmiðið að standa vörð um lög um að útlendingar megi ekki eiga yfir 40 prósenta hlut í norskum útgerðum. Þau lög, og lög sem eiga að tryggja að sjávarútvegur styðji við strandsvæði, séu hornsteinninn í norskri sjávarútvegsstefnu. „Varðandi Samherja er það hálfgerð tilviljun að Samherji eigi 40% í þessu félagi en þetta þjónar einnig hagsmunum ríkisins gagnvart öðrum félögum. Noregur hefur alltaf fagnað erlendum fjárfestingum en við viljum líka tryggja að farið sé að norskum lögum og reglum,“ segir Ingebrigtsen.

Vilja forðast kvótasöfnun

Ráðherrann segir aðgerðirnar fyrst og fremst miða að því að koma í veg fyrir samþjöppun eignarhalds á kvóta og skipum. Koma þurfi í veg fyrir að erlend fyrirtæki fari bakdyramegin inn í norskt kvótakerfi. Þar sé horft til reynslunnar frá öðrum Evrópuríkjum og hún sýni að hafa beri gætur á fjárfestingum Samherja.  „Undanfarin ár hefur eignarhald í evrópskum sjávarútvegi safnast á fárra hendur og þar hefur Samherjiverið framarlega í flokki. Ég tel mig geta fullyrt að í Noregi er víðtæk pólitísk sátt um að við viljum ekki að fiskveiðifloti okkar sé hluti af þessu.“

Vilja vinna gegn svikum og eftirlitslausum veiðum

Í viðtali við Dagens Næringsliv um helgina sagði Ingebrigtsen að orðspor Samherja væri vafasamt. Spurður nánar út í þau ummæli vísar ráðherrann til Samherjaskjalanna og eftirmála þeirra, en mikið hefur verið fjallað um mál Samherja í tengslum við mál norska bankans DNB. „Í mörg ár hafa viðskipti Samherja í Afríku og Namibíu verið í brennidepli. Noregur einblínir einnig á alþjóðlegt samstarf gegn svikum í sjávarútvegi og eftirlitslausum veiðum. Það er líka hluti af sjálfbærri fiskveiðistjórnun okkar og við viljum vera best í heimi í sjálfbærri stjórnun fiskveiða.“

Norski ráðherrann segist ekki hafa fengið viðbrögð frá Íslandi vegna ummæla sinna um helgina, hvorki frá íslenskum stjórnvöldum né Samherja.  Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, hafði lítið að segja um málið og hyggst hann ekki taka málið upp við starfsbróður sinn í Noregi.

Magnús Geir Eyjólfsson