Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Árangurslausar friðarumleitanir

12.05.2021 - 12:00
Árásir Ísraelshers á Gazasvæðið hafa kostað hátt í fimmtíu Palestínumenn lífið. Á fjórða hundrað eru særðir. Egypskar sendinefndir eru væntanlegar til Gaza og Ísraels í dag til að reyna að stilla til friðar. 

 

Þrír greindust með COVID-19 hér á landi í gær, einn utan sóttkvíar. Tveir eru búsettir í Skagafirði en þar hafa ellefu greinst síðan fyrir helgi. Einn greindist á landamærunum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að alls hafi tveir greinst með indverska afbrigði COVID-19 á landamærunum og eru báðir í sóttvarnahúsi. Búast megi við því að þetta verði ráðandi afbrigði víða á næstunni. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gerir ráð fyrir afléttingum í næstu viku og rýmri samkomutakmörkunum. Hún vonar að í það stefni nú að hægt verði að aflétta takmörkunum í eitt skipti fyrir öll. 

Ákvörðun Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns Vinstri grænna, að draga framboð sitt til baka, var hans ákvörðun og fer í ferli innan þingflokks Vinstri grænna, segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG. Hún segir að ákvörðun Kolbeins hafi komið á óvart. 

Mikilvægt er að gerðar séu langtímaáætlanir til að jafna aðstæður barna í efnahagslægðum, því áhrifin geti verið lengi að koma fram. Eva Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá Unicef, segir að staða íslenskra barna sé almennt góð, en þau eigi síður kost á að taka þátt í tómstundastarfi en börn í öðrum Evrópulöndum. 

Formaður Samfylkingarinnar segir brýnt að grípa sem fyrst til aðgerða á vinnumarkaði og til aðstoðar þeim sem glíma við atvinnuleysi. Flokkurinn ætlar að leggja fram þingsályktunartillögu á næstu dögum með aðgerðum sem eiga að kosta átján milljarða króna. 

Biblíubréfinu svokallaða, einu verðmætasta frímerkta skjali heims, var líklega stolið af Þjóðskjalasafninu en það hefur gengið kaupum og sölum síðustu áratugi. Þetta er niðurstaða sérfræðinga safnsins sem rannsökuðu málið eftir að nýjar vísbendingar komu fram í heimildarmynd sem sýnd var á RÚV í apríl.

Lokað er fyrir aðgengi almennings að gosstöðvunum við Fagradalsfjall í dag vegna framkvæmda við gönguleið að gosinu. 

Manchester City er Englandsmeistari í fótbolta. City hefur nú unnið ensku deildina þrisvar á síðustu fjórum árum og er á leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV