Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ekki of seint að kynna endurbætt smitrakningarapp

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Endurbætur á smitrakningarappi voru kynntar á upplýsingafundi almannavarna. Verkefnastjóri segir ekki of seint að betrumbæta appið. Landlæknir segir brýnt að virkja appið enda viðbúið að slakað verði á sóttvarnaaðgerðum á næstunni.

Smitrakningarappið sem kynnt var til sögunnar snemma í faraldrinum hefur tekið miklum breytingum. Áður voru ferðir fólks raktar út frá GPS-gögnum en með nýju uppfærslunni er notast við Bluetooth.

Hefur þetta einhver áhrif á persónuverndarsjónarmið?

„Já, í rauninni bara jákvæð vegna þess að nú erum við hætt að safna staðsetningagögnum. Við erum bara að nýta þessa ópersónugreinanlegu lykla sem símar eru að skipta sín á milli og liggja í rauninni einungis í símanum þangað til einhver sem greinist með COVID samþykkir að senda lyklana,“ segir Ólafur Kristján Ragnarsson, verkefnastjóri hjá embætti landlæknis.

Til þess að virkja breytinguna þarf að sækja sér nýja uppfærslu á appinu. Þegar hún er komin er appið opnað og svo þarf að samþykkja skilmála þess. Því næst þarf að veita appinu heimild svo það geti sent viðkomandi tilkynningar um að hann eða hún kunni að hafa komist í návígi við smitaðan einstakling. Með því að fara inn í stillingar í appinu er unnt að breyta tungumáli þess, til að mynda úr ensku yfir á íslensku.  

Landlæknir biðlar til fólks að virkja appið. 

„Við teljum að það verði afar mikilvægt á næstunni þegar við vonandi förum að slaka á meira á hér innanlands,“ segir Alma Möller landlæknir.

Það er ekki of seint í rassinn gripið að koma með þetta núna?

„Nei, alls ekki. Nú er sumarið að koma. Sól á lofti og við ætlum vonandi að fara að ferðast og hittast eitthvað meira,“ segir Ólafur.