Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vilja setja þak á fjölmiðlastyrki

11.05.2021 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Minnihluti alllsherjar- og menntamálanefndar Alþingis vill setja þak á stuðning ríkisins við einkarekna fjölmiðla til að koma í veg fyrir að það fjármagn sem er til skiptanna renni að mestum hluta til stærstu fyrirtækjanna á markaðnum.

 

Menntamálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu í lok síðasta árs og allsherjar- og menntamálanefnd var með það til umfjöllunar í rúma þrjá mánuði. Nefndin lauk umfjöllun sinni í síðustu viku.

Samkvæmt breytingartillögu meirihluta nefndarinnar eiga lögin einungis að gilda til loka þessa árs. Sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á að lögin gildi einungis í takmarkaðan tíma.

Fulltrúar Pírata og Samfylkingarinnar í nefndinni skiluðu minnihlutaáliti í gær og þar er lagt til að stuðningur við einstök fyrirtæki skuli ekki vera hærri en sem nemur 50 milljónum króna.

Guðmundur Andri Thorsson fulltrúi Samfylkingarinnar í nefndinni segir mikilvægt að setja þak á stuðninginn til að tryggja hagsmuni minni fyrirtækja á markaði.

„Og ef að það er ekkert þak á þessu þá er hætt við því að allt fjármagnið sem til skiptanna er að það renni til þessara stærstu aðila og minni aðilar sitji eftir með sárt ennið og fái ekki neitt og þá er verra af stað farið en heima setið,“ segir Guðmundur Andri.

Önnur umræða um málið átti að hefjast á Alþingi í gær en það var óvænt tekið af dagskrá að beiðni fulltrúa Framsóknarflokks. Guðmundur Andri segir að tillaga meirihlutans um að binda gildistíma laganna við eitt ár sé ekki skynsamleg.

„Mér finnst hún vera misráðin og ég veit svo sem ekki alveg hvað verður um hana. Nefndin hefur tekið málið aftur til sín og er að fara að skoða þetta á ný og það getur verið að meirihlutinn falli frá þessari tillögu og ég held að það sé mjög mikilvægt ekki síst fyrir þessa minni aðila og í raun fyrir alla aðila,“ segir Guðmundur Andri.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV