Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrír karlar og ein kona ákærð vegna Rauðagerðismálsins

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír karlar og ein kona eru ákærð vegna morðsins í Rauðagerði, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Eini Íslendingurinn sem sat í gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglu er ekki meðal þeirra. Albanskur karlmaður á þrítugsaldri hefur við yfirheyrslu hjá lögreglu játað hafa skotið Armando Beqiri til bana fyrir utan heimili hans um miðjan febrúar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu lagði lögreglan upp með þessi fjögur þegar málið var sent til héraðssaksóknara. Það sem lá þá til grundvallar var meðal annars hlutdeildarverknaður og spilling sönnunargagna.

Einn af mönnunum sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna morðsins en var síðan látinn afplána eftirstöðvar refsingar vegna fyrri dóms sem hann var með á bakinu. Fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hvernig fjórði maðurinn tengist málinu. Konan hefur tengsl við manninn sem hefur játað morðið, eftir því sem fréttastofa kemst næst.

Um tíma sátu níu í gæsluvarðhaldi og fjórtán höfðu réttarstöðu sakbornings í einni umfangsmestu lögreglurannsókn Íslandssögunnar. 

Íslendingurinn sem var handtekinn og sat um tíma í gæsluvarðhaldi er ekki ákærður. Lögmaður hans vildi ekki tjá sig við fréttastofu. Hann hefur verið sagður umsvifamikill í undirheimum en meðal þess sem rannsókn lögreglu beindist að var hvort morðið væri hluti af uppgjöri.  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV