Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tæpur þriðjungur ungs fólks á Íslandi notar nikótínpúða

11.05.2021 - 23:08
Sala nikótínpúða hefur margfaldast á stuttum tíma. Í byrjun árs 2019 voru flutt inn 64 kíló á mánuði og í júlí í fyrra voru flutt inn tólf tonn. Áætlað er að um 116 tonn verði flutt inn á þessu ári, miðað við innflutninginn það sem af er ári.

Neyslan hefur stóraukist í yngstu aldurshópunum og það er lítill munur á notkun eftir kynjum. 22 prósent framhaldsskólanema hafa notað nikótínpúða einu sinni eða oftar síðustu þrjátíu daga, og neyslan eykst með aldri. Um þriðjungur Íslendinga á aldrinum 18-34 ára notar nikótínpúða daglega eða öðru hvoru og langflestir þeirra daglega. Notkun á tóbaki í vör hefur minnkað um helming á síðustu árum. 

Lára G. Sigurðardóttir, læknir og doktor í lýðheilsuvísindum, útskýrði í Kastljósi í kvöld að nikótín væri með þekktustu ávanabindandi efnunum og hefði margvísleg áhrif á líkamann: „Það losar adrenalín sem hækkar blóðþrýsting, hjartslátt og öndunartíðni, sem gefur smá kikk. En það fer líka yfir í heilann og hefur áhrif á vellíðunarsvæði heilans með því að losa dópamín.“ Hún sagði að nikótín losaði dópamín í það miklu magni að þegar líkaminn fengi svo ekki nikótín helltist yfir fólk vanlíðan: „Og þá er maður farinn að taka nikótín til þess að minnka vanlíðan.“

Hún sagði að efnið hefði gríðarleg áhrif á heilann: „Því heilinn nær ekki fullum þroska fyrr en fólk er um 25 ára til þrítugt. Þannig að það eru enn miklar taugatengingar að mótast í heilanum. Það veldur skapgerðarbreytingum, einbeitingarleysi og hefur áhrif á lærdómsgetu og svefn,“ sagði hún. 

Nikótínpúðar þurfa ekki markaðsleyfi og nær engar reglur ná yfir söluna. Til stendur þó að bæta úr þessu með frumvarpi heilbrigðisráðherra, sem gerir meðal annars ráð fyrir að það verði bannað að auglýsa púðana og hafa þá sýnilega, nema í sérverslunum. Viðar Hafsteinsson, sérfræðingur hjá embætti landlæknis, segir mjög mikilvægt að frumvarpið verði samþykkt á þessu þingi svo hægt verði að vinna gegn aukinni neyslu. „Þó eflaust megi segja að það hefði mátt ganga lengra,“ bætir hann við. 

Kastljós kvöldsins má horfa á í spilaranum hér að ofan.