Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stór kútur fullur af kviku undir gosinu

11.05.2021 - 17:00
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Þó liðin sé rúm vika frá því að gosið í Geldingadölum byrjaði að gjósa með stuttum hléum er ekkert lát á hraunflæðinu, sjálf hraunáin hefur heldur færst í aukana. Þorvaldur Þórðarson, próffesor í eldfjallafræði, segir að framan af hafi flæðið verði á bilinu 5-10 rúmmetrar á sekúndu en sé nú á bilinu 10-15 rúmmetrar. Hann segir að hraunáin og gosvirknin í gígnum sé í raun að haga sér sjálfstætt.

Rás sem við sjáum ekki

„Það hlýtur að vera rás sem við sjáum ekki og kemur upp úr gígnum og fer beint út í hraunána. Hún viðheldur hraunflæðinu í hraunánni þrátt fyrir allan þennan breytileika og yfirfallið sem kemur í tengslum við kvikustrókana,“ segir Þorvaldur

Hvernig skýrir hann þessa tvískiptu eða aðskildu hegðun gossins?

„Það má hugsa sér það þannig að afgösunin sem keyrir áfram sprengivirknina byrji á 70-80 metra dýpi. Þetta eru bæði stórar og smár blöðrur sem stækka og þenjast út á leiðinni upp. En þær taka ekki yfir alla gosrásina. Þær eru bara í hluta gosrásarinnar, sennilega miðsvæðis. Síðan er samfelld hraunkvika sem streymir upp með hliðunum og fer þá beint inn í þessa rás eða kanal sem við sjáum ekki. Hins vegar haga blöðrurnar sér eiginlega sjálfstætt og keyra upp sprengivirknina, lyfta hraunyfirborðinu aðeins þegar þær þenjast út. Síðan springa þær og þeyta kvikuslettunum út.

Stór kútur

En hver er skýringin á því að þær eru að myndast núna? Þorvaldur segir að þær séu reyndar búnar að vera að myndast allan tímann. Sennileg skýringin á breytingunum sem urðu á gosinu á mánudaginn í síðustu viku séu breytingar á efstu lögunum í gosrásinni.

„Þannig að það er kominn nokkuð stór kútur þarna undir sem er meira og minna fullur af kviku. Það út- og innflæði úr honum um gosop sem eru minni en þvermálið á kútnum. Þegar fersk kvika kemur inn að neðan fer hún að afgasast og mynda stóru blöðrurnar sem síðan streyma mjög hratt upp. Þegar þær losna úr kerfinu út í andrúmsloftið þá dettur niður gasþrýstingurinn í kerfinu. Þá sígur yfirborð kvikunnar í gígnum aðeins og þá þarf að dæla aðeins meira af kviku að neðan til að fá nægilega mikið af blöðrum til að búa til næsta fasa. Það er þess vegna sem þetta er svona regluleg virkni,“ segir Þorvaldur.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Fimmti gígurinn

Gæti myndast lítil dyngja

Hraunið í kringum gosið stækkar daga frá degi. Þorvaldur segir athyglisvert hvernig það breiðir úr sér.

„Gosið er í raun að senda hraun í ansi margar áttir. Það fer hraun sitthvoru megin í Nafnlausadalnum. Það fer niður í Meradali og jafnvel inn í Geldingadali. Þannig að það er farið að dreifa sér í raun í allar áttir frá gígnum. Það eru kannski fyrstu teikn að því að þetta hraun gæti farið að mynda dyngju. Þær byggjast upp þar sem þú ert með einn gíg. Og hraunið dreifist í allar áttir frá þeim gíg. Ekki endilega alltaf í einu heldur smátt og smátt yfir ákveðinn tíma. Þannig byggist upp þessi skjöldur sem við þekkjum hvað dyngjur varðar.“

Þorvaldur segir að ef þetta gos breytist í dyngjugos verði þetta lítil dyngja. Þvermálið á henni gæti orðið þrír til fimm kílómetrar.

„Þannig að þetta yrði frekar lítill hraunskjöldur eða dyngja. Þetta yrði ekkert á við Skjaldbreið sem er um 30 kílómetrar í þvermál og til þess þurfum við miklu meiri framleiðni og líka miklu lengra gos,“ segir hann. Gosið þurfi reyndar að vera á lífi nokkuð lengi til að mynda dyngju.
„Við eru þá ekki að tala um mánuði heldur ár. Það er hugsanlegt að það gangi eftir. Það eru engin teikn á því að gosið sé að fara að hætta.“