Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reykhólahreppur lætur greina sameiningarkosti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Reykhólahreppur lætur nú greina þá kosti sem felast í sameiningu við önnur sveitarfélög. Sveitarstjóri segir stefnt að kosningum um þetta árið 2026.

Hreppurinn bætist þannig í hóp sveitarfélaga sem vill skoða möguleika á sameiningu við önnur sveitarfélög. vinnan er nýhafin en Ingibjörg Birna Erlingsdóttir sveitarstjóri segir átta sviðsmyndir til skoðunar. 

„Þetta er sem sagt efni sem við erum að safna núna og ætlum svo að vinna þetta með íbúunum og vera með íbúaþing vonandi í lok maí eða byrjun júní. Þá kemur aðalefnið fram.“ 

Nágrannar þeirra í Strandabyggð hafa þá einnig hafið sama ferli. Reykhólahreppur, Strandir og Dalir eiga í ríku samstarfi. Þau eru með sameiginlegt svæðisskipulag og einnig sameiginlega byggingar- og skipulagsfulltrúa. Ingibjörg segir það þó ekki binda sveitarfélögin í að skoða aðra kosti. Reykhólahreppur leggur áherslu á að efla stjórnsýslu. 

„Verkefnin sem sveitarfélögunum eru falin og þau sem okkur hafa verið falin til framtíðar, við þurfum að geta unnið þau vel. Við þurfum að hafa starfsfólk til þess. Við teljum að stærri heild geti betur unnið úr þeim efnum.“

Leiðin að endanlegri sameiningu er engu að síður löng. Að valkostagreiningunni lokinni er boðið til óformlegra samræðna sem verða síðan formlegar ef allt gengur að óskum. Endanleg kosning um sameiningu verður ekki í bráð. 

„Við sjáum fyrir okkur að það verður væntanlega ekki í kosningunum þar næstu sem væri hægt að kjósa um sameiningu sveitarfélaga. Það væri 2026.“