Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

La Traviata án áhorfenda í Ríkisóperunni í Vín

Mynd með færslu
 Mynd: Nuno Simoes. - Wikimedia Commons.

La Traviata án áhorfenda í Ríkisóperunni í Vín

11.05.2021 - 22:36

Höfundar

Óperan „La Traviata“ eftir Verdi var flutt í Ríkisóperunnar í Vín 7. mars sl. Vegna sóttvarnarreglna var ekki hægt að hafa áhorfendur í salnum, en þess í stað var óperusýningunni sjónvarpað og útvarpað beint.

 

Hljóðritun frá sýningu Ríkisóperunnar í Vín verður flutt á Óperukvöldi útvarpsins, fim. 13. maí. Í aðalhlutverkum eru suður-afríska sópransöngkonan Pretty Yende, perúski tenórsöngvarinn Juan Diego Flórez og rússneski barítónsöngvarinn Igor Golovatenko.

Berklaveik gleðikona kynnist ástinni

Óperan „La Traviata“ gerist í París á 19. öld og var upphaflega frumsýnd árið 1853. Francesco Maria Piave samdi óperutextann upp úr skáldsögunni “Kamelíufrúin” eftir Alexandre Dumas yngri. Fyrsti þáttur gerist í veislu hjá gleðikonunni Violettu Valéry. Í veislunni er ungur maður, Alfredo Germont, sem lengi hefur verið ástfanginn af Violettu. Þegar dansinn á að hefjast verður Violettu skyndilega illt, enda er hún berklaveik, þótt hún vilji láta lítið á því bera. Hún biður gestina að fara á undan sér inn í salinn, hún muni jafna sig fljótt. Alfredo verður þó eftir hjá henni og lætur nú í fyrsta skipti verða af því að játa henni ást sína. Violetta er vantrúuð á það að ást hans muni endast, en gefur honum samt blóm og segir að hann megi heimsækja sig þegar blómið sé fölnað. Þegar Alfredo og hinir gestirnir eru farnir er Violetta hugsi, einlæg ástarjátning Alfredos hefur snortið hana. Hún veltir því fyrir sér hvort hún fái kannski loksins að kynnast raunverulegri ást, en reynir að hrista þessar hugsanir af sér, því henni finnst fáránlegt að slíkt geti komið fyrir hana. Samt getur hún ekki hætt að hugsa um Alfredo.

Sambúð sem vekur hneyksli

Fyrra atriði 2. þáttar gerist í húsi uppi í sveit. Violetta og Alfredo hafa búið þar saman í þrjá mánuði. Þau elska hvort annað innilega og Violetta hefur gjörbreytt lífsháttum sínum. Meðan Alfredo skreppur til Parísar skoðar Violetta bréf sem borist hafa. Hún fær boðskort í veislu frá Flóru vinkonu sinni, en ætlar ekki að fara. En skyndilega kemur Giorgio Germont, faðir Alfredos, í heimsókn. Hann segir Violettu að sambúð þeirra Alfredos valdi hneyksli og nú sé svo komið að systir Alfredos geti ekki gifst nema sambandi Alfredos og Violettu verði slitið. Germont biður Violettu að skilja við Alfredo svo að hún standi ekki í vegi fyrir lífshamingju systur hans. Þó að Violetta sé ófús til þessa finnst henni hún ekki geta neitað bón gamla mannsins og hún lofar að fara frá Alfredo. Ástæðuna ætlar hún ekki að segja honum þar sem hún býst ekki við að hann taki hana gilda. Hún fer með vagni til Parísar, en sendir Alfredo bréf þess efnis að sambandi þeirra sé lokið. Alfredo er niðurbrotinn þegar hann fær bréfið, og faðir hans getur ekki róað hann. Þegar hann sér boðskortið frá Flóru er hann viss um að Violetta hafi farið í veisluna og flýtir sér þangað.

Uppnám í veislu

Seinna atriði þáttarins gerist í veislunni þar sem Flóra og vinkonur hennar syngja hinn fræga Sígaunakór. Alfredo kemur í veisluna og skömmu síðar birtist Violetta ásamt gömlum elskhuga sínum, Douphol baróni. Alfredo og Douphol spila um peninga og fara brátt að deila svo úr verður hólmgönguáskorun. Violetta reynir að fá Alfredo til að hætta við einvígið, en grunsemdir hans vakna og hann verður þess fullviss að hún elski Douphol. Hann hellir svívirðingum yfir Violettu og kastar í hana hrúgu af peningum.  Allir reiðast framkomu Alfredos, einkum þó Germont faðir hans, sem er nýkominn. Úr verður kór þar sem Alfredo ásakar sjálfan sig, faðir hans er óviss um hvað gera skuli, Violetta segir að Alfredo muni vonandi einhvern tíma skilja hið sanna, og hinir láta í ljós samúð sína með Violettu.

Endalok

3. þáttur gerist mánuði eftir veisluna í íbúð Violettu. Hún er orðin dauðveik af berklum og Annina hugsar um hana. Grenvil læknir biður Violettu að vera hughraust, en hann sér samt að engin von er um bata. Violetta les bréf frá Germont þar sem hann segir henni að Alfredo viti núna sannleikann og sé á leiðinni til hennar. Hún finnur að hún á skammt eftir og óttast að Alfredo komi of seint. En þegar minnst varir birtist Alfredo og þau Violetta fallast í faðma. Þau láta sig dreyma um að búa aftur saman uppi í sveit, og syngja um það dúettinn “Parigi, o cara“, en skyndilega versnar Violettu. Þegar Germont og læknirinn koma er ljóst hvert stefnir og Violetta deyr í fangi Alfredos.

Flytjendur í sýningu Ríkisóperunnar í Vín

Violetta Valéry: Pretty Yende.

Alfredo Germont: Juan Diego Flórez.

Giorgio Germont: Igor Golovatenko.

Annina: Donna Ellen.

Flóra: Margaret Plummer.

Gastone: Robert Bartneck.

Douphol barón: Attila Mokus.

Markgreifinn af Obigny: Erik van Heyningen.

Grenvil læknir: Ilya Kazakov.

Kór Ríkisóperunnar í Vín söng, kórstjóri: Martin Schebesta.

Hljómsveit Ríkisóperunnar í Vín,

stjórnandi: Giacomo Sagripanti.

 

Óperan "La Traviata" verður flutt á Óperukvöldi útvarpsins, fim. 13. maí kl. 19.00.