Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Hef ekki hugsað um neitt annað en sprautuna í dag“

11.05.2021 - 14:05
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var meðal þeirra 12 þúsund sem bólusettir voru með bóluefni Pfizer í dag. Forsætisráðherra viðurkennir að sprautur séu í engu sérstöku uppáhaldi. „Ég er búin að vera svo stressuð fyrir sprautunni í allan dag að ég hef ekkert hugsað um neitt annað en að mæta hingað. Ég er bara svona - þetta er svona svipað og að mæta til tannlæknis. En þetta var alveg gríðarlega vel gert og ég get alveg sagt þeim sem eru hræddir við sprautur að þeir hafa ekkert að óttast.“

Katrín ræddi við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur, fréttamann, skömmu eftir að hafa fengið fyrri sprautuna af Pfizer. Hún fær þá seinni eftir þrjár vikur. 

Hún sagði magnað að vera komin á þennan stað í faraldrinum eftir undanfarna fjórtán mánuði. Skipulagningin væri mögnuð því fólk sæi ekki öll þau handtök sem þarna lægju að baki, meðal annars blöndun bóluefnanna og annað slíkt.

Hún áréttaði samt að þetta væri ekki búið og benti í því samhengi á stöðuna í Skagafirði þar sem upp er komið hópsmit. „Við erum ekki laus og þurfum að hafa einhverjar ráðstafanir.“

Hún sagði áfram stefnt að afléttingum í ákveðnum skrefum en vildi ekki segja hver þau yrðu eða hvenær.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV