Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hátt í þrjátíu umsagnir um frumvarp um afglæpavæðingu

11.05.2021 - 21:45
Mynd með færslu
 Mynd: Á allra vörum
Hátt í þrjátíu umsagnir bárust velferðarnefnd Alþingis út af frumvarpi heilbrigðisráðherra um afglæpavæðingu neysluskammta fíkniefna. Læknafélag Íslands og lögreglustjórar gjalda varhug við þessum breytingum en Rauði krossinn og Barnaheill styðja frumvarpið.

 

Frumvarpið felur í sér að kaup og varsla á takmörkuðu magni ávana og fíkniefna, svokölluðum neysluskömmtum, verður ekki lengur ólögleg.
Samkvæmt frumvarpinu þarf ráðherra hins vegar að setja reglugerð til að skilgreina hvað telst vera neysluskammtur.

Frumvarpið er umdeilt. Velferðarnefnd Alþingis hefur málið nú til umfjöllunar og hafa 27 umsagnir borist meðal annars frá félagi fanga, Barnaheill, Bindindissamtökum, ríkislögreglustjóra og lögregluembættum, Læknafélagi Íslands, Reykjavíkurborg, Rauða krossinum og fleiri félögum og samtökum.

Lögreglan telur að frumvarpið sé ekki nægilega skýrt og geti búið til óþarfa flækjustig í lagalegum skilningi. Læknafélagið óttast að þetta muni leiða til aukinnar neyslu meðal ungmenna. Rauði krossinn fagnar hins vegar frumvarpinu og það gera Barnaheill líka.

„Við sjáum það jákvæða að vera mannúðlegri gagnvart fólki sem hefur ánetjast vímuefnum, þar með talið börnum. Þegar fólk er komið í þau spor að vera háð vímuefnum og velur sér að nota fíkniefni þá er auðvitað ástæða til að styðja fólk frekar en að líta á það sem glæpamenn,“ segir Þóra Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Barnaheill.

Forvarnar- og bindindissamtök leggjast hins vegar gegn samþykkt frumvarpsins.

„Við höfum unnið samkvæmt stefnumörkun íslenskra stjórnvalda frá árinu 2013 í ávana- og vímuefnamálum. Þar er mjög beinskeytt stefna og ákveðin sem snýr að börnum og ungmennum. Einn af hornsteinunum þar er að gera allt sem hægt er til þess að annars vegar koma í veg fyrir að börn og ungmenni hefji neyslu vímuefna og hitt að koma í veg fyrir að þau lendi í vanda vegna þessarar neyslu. Ekkert í þessu frumvarpi tekur á þessari spurningu,“ segir Árni Einarsson framkvæmdastjóri FRÆ, félags um fræðslu og forvarnir.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV