Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fjórir ákærðir vegna morðsins í Rauðagerði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðssaksóknari ákærir fjóra vegna morðsins í Rauðagerði þar sem Armando Beqiri, fjölskyldufaðir á þrítugsaldri, var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt um miðjan febrúar. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, við fréttastofu. Hún segir ákæruna byggða á 211. grein hegningarlaga þar sem fjallað er um manndráp en tjáir sig að öðru leyti ekki um málið.

Albanskur karlmaður á þrítugsaldri situr í gæsluvarðhaldi vegna málsins en hann hefur játað í yfirheyrslu hjá lögreglu að hafa skotið Armando til bana.

Gæsluvarðhald yfir manninum rennur út á morgun og saksóknari óskar væntanlega eftir að það verði framlengt, meðal annars með vísan til þess að ákæra á hendur honum hafi verið gefin út.

Rannsókn lögreglunnar á morðinu er ein sú umfangsmesta í Íslandssögunni, níu sátu um tíma í gæsluvarðhaldi og fjórtán voru með réttarstöðu sakbornings.

Þegar ákærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sendi málið til embættis héraðssaksóknara fylltu málsgögnin tíu möppur að viðbættu myndefni og fleiri sönnunargögnum.

Lögreglan sviðsetti morðið í Rauðagerði í lok apríl og voru starfsmenn á vegum héraðssaksóknara viðstaddir sviðsetninguna.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV