Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Eitt nýtt smit í Skagafirði - níu í einangrun

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Níu er í einangrun á Sauðárkróki og nærri 400 í sóttkví. Eitt nýtt smit greindist þar í gærkvöld sem tengist starfsmanni grunnskólans. Sá var í sóttkví. Enginn af þeim sem smitast hefur í Skagafirði er mikið veikur.

Um 130 almenn sýni voru tekin á Sauðárkróki í gær. Auk þess fóru 70 börn og kennarar á neðra stigi leikskólans Ársala í skimum. Alls hafa nú um 600 manns í Skagafirði farið í skimun frá því á föstudag.

Um 400 í sóttkví í Skagafirði

„Það bættist eitt nýtt smit við í gærkvöldi þannig að það eru níu komnir í einangrun hjá okkur. Við eru að áætla að nánast 400 manns séu komnir í sóttkví. Sá sem greindist í gærkvöldi var í sóttkví,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra.

Ekki hægt að útiloka fleiri smit

Hann segir ekki hægt að útiloka að fleiri smit greinist, sem tengist þá þeim sem þegar eru í einangrun. „Vonir okkar standa þá til að þeir séu að greinast í sóttkví, þannig að menn séu þá að búnir að ná að einangra þau tilfelli.“ Enginn af þessum níu sem smitast hafa eru mikið veikir, að sögn Stefáns, og enginn á gjörgæsludeild.

Vonast til að geta aflétt flestu um helgina

Þær miklu aðgerðir sem gripið var til í Skagafirði gilda fram á sunnudag og eftir það segir Stefán að staðan verði metin. „Vonir okkar standa til þess, ef að þetta gengur svona eins og við erum að vonast til að það geri, að við getum aflétt töluvert miklu um helgina. En það verður bara að koma í ljós.“