Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Umræðan ýfir upp gömul sár og fleiri leita hjálpar

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist
Aðsókn hefur stóraukist í þjónustu Stígamóta eftir að ný #metoo-bylgja leit dagsins ljós í síðustu viku og það sama má segja um aðsókn í þjónustu Bjarkarhlíðar. Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, segir ljóst að umræðan hafi mikil áhrif á fjölda fólks og ýfi gjarnan upp gömul sár.

Biðtími tvöfaldast

Bjarkarhlíð er þjónustumiðstöð fyrir fullorðna þolendur ofbeldis af öllum kynjum. Þar gefst einstaklingum kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu og á þeirra forsendum.

Venjulega kemst fólk að innan viku en biðtími hefur tvöfaldast á síðustu dögum vegna aukinnar aðsóknar í tengslum við kröftuga umræðu á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem þolendur kynferðisofbeldis stíga fram undir nafni og segja sína sögu. 

„Það hafa töluvert fleiri haft samband síðustu daga en venjulega og mörg þeirra segja að þau hafi „triggerast“ og líði illa. Fólk talar um að þetta ýfi upp gömul sár sem það sér núna að það þarf að vinna úr,“ segir Ragna Björg í samtali við fréttastofu. 

Alltaf gott þegar fólk leitar hjálpar

Þegar Ragna er spurð hvort hún telji það jákvætt, að umræðan verði til þess að fólki leiti hjálpar, segir hún það alltaf jákvætt þegar fólk treystir sér til að leita hjálpar.

„Það má leiða líkum að því að ef fólk hefði ekki fundð þessa þörf núna þá hefði hún komið seinna, ef fólk er með mál sem það hefur ekki unnið úr. Það upplifir þá kannski að þetta sé dropinn sem fyllir mælinn,“ segir hún. 

„Þetta er bara svo erfitt. Fólk veit hverjir þeirra gerendur eru og það getur verið erfitt fyrir marga að horfa upp á gerendur eiga eðlilegt líf, meðan það hefur verið frá vinnu kannski í einhver ár að eiga við afleiðingar ofbeldisins, á meðan gerandinn heldur áfram að lifa sínu lífi,“ segir Ragna.