Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óttast að fólk flýti sér að fá Janssen eða AstraZeneca

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Sérfræðinganefnd á vegum norsku ríkisstjórnarinnar klofnaði í afstöðu sinni til þess hvernig hægt væri að óska eftir bólusetningu með bóluefni frá Janssen eða AstraZeneca. Meirihlutinn vildi setja notkun á þessum bóluefnum ströng skilyrði og óttaðist að ungt fólk myndi flykkjast í bólusetningu til að geta ferðast í sumar. Minnihlutinn vildi leyfa fólki að njóta vafans.

Þetta kemur fram á vef NRK. 

Sérfræðinganefndin mælti með því að bæði AstraZeneca og Janssen yrðu tekin úr bólusetningaáætlun stjórnvalda. Norðmenn myndu með þeirri ákvörðun feta í fótspor Dana sem bólusetja ekki með þessum bóluefnum. Danir tilkynntu í dag að bólusetningaáætlun þeirra myndi tefjast enn frekar. Yfirvöld óttast að ný bylgja kunni að vera breiðast út á Kaupmannahafnarsvæðinu, aðeins þremur vikum eftir að slakað var á aðgerðum.

Lyfjastofnun Evrópu hefur ekki séð ástæðu til að breyta upplýsingatexta á bóluefni AstraZeneca vegna mjög sjaldgæfs blóðtappa þar sem fækkun blóðflagna er einnig til staðar. Stofnunin komst að þeirri niðurstöðu að ávinningur af notkun þess væri meiri en áhættan í öllum aldurshópum.  

Þá sagði stofnunin að heildarávinningur af notkun bóluefnis frá Janssen væri meiri en áhættan sem því fylgdi. Hugsanleg tengsl væru milli bólusetningar með bóluefninu og mjög sjaldgæfra tilfella blóðtappa þar sem magn blóðflagna er einnig minnkað.

Íslendingar nota bæði bóluefnin. Tæplega átta þúsund skammtar hafa verið gefnir af bóluefninu frá Janssen og nærri 58 þúsund skammtar af bóluefni AstraZeneca.

Norska sérfræðinganefndin taldi að fólk ætti að fá tækifæri til að láta bólusetja sig með þessum bóluefnum ef það vildi en var ekki einhuga um hvernig það yrði útfært. Meirihluti nefndarinnar vildi setja bólusetningunni þröng skilyrði en minnihlutinn vildi engar slíkar kvaðir.

Minnihlutinn sagði í áliti sínu að bóluefnin ættu að vera lyfseðilsskyld en benti á að ef fólk fengi sjálft að taka þessa ákvörðun gæti það leitt til þess að heilbrigðir yrðu bólusettir fyrr. „Fólki ætti að vera frjálst að taka meiri áhættu en samfélagið er reiðubúið til í heild sinni. Það ætti að geta fengið bóluefni AstraZeneca í stað þess að þurfa að bíða kannski tíu vikur,“ segir Gunnar Bovim, fyrrverandi rektor við Norska tækniháskólann.

Bovim sagði að minnihlutinn hefði áhyggjur af því hvaða skilaboð Norðmenn væru að senda til umheimsins. Stjórnvöld væru að senda bóluefni til annarra landa en um leið að taka fyrir notkun þeirra heimafyrir. Bovim tók fram að nefndin væri sammála Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og Lyfjastofnun Evrópu um að bóluefnin frá AstraZenca og Janssen væru góð og veittu vörn gegn alvarlegum veikindum vegna COVID-19.

Anne Kjersti Befring, við Háskólann í Ósló, var hluti af meirihlutanum og segir áhættuna af AstraZeneca vera meiri fyrir ungt fólk en veikindin sem COVID-19 getur valdið. „Það er mjög erfitt að meðhöndla aukaverkanirnar og þess vegna taldi meirihlutinn rétt að setja notkun þessara bóluefna einhverjar skorður.“

Gunnveig Grødeland er sömu skoðunar og óttast að ef bólusetning með þessum bóluefnum verði gefin algjörlega frjáls geti það leitt til þess að ungt fólk flykkist í bólusetningu. „Við vildum ekki að fólk yngra en 45 ára færi að láta bólusetja sig með þessum bóluefnum í stórum stíl. Ef hundrað þúsund manns á þessum aldri láta bólusetja sig eru 5 til 10 sem geta fengið alvarlegar aukaverkanir.  Þetta getur verið fólk sem hefði ekki veikst alvarlega af völdum COVID-19.“

Meirihlutinn hafi því viljað að fólk gæti fengið þessi bóluefni en með ströngum skilyrðum. „Þetta getur verið fólk sem er hrætt við sjúkdóminn, hefur einangrað sig og er þunglynt eða fólk sem ætlar að ferðast til Indlands til að heimsækja veika foreldra sína.“ Það eigi því ekki að vera auðvelt að fá bólusetningu með þessum bóluefnum. „Fyrir hinn venjulega Norðmann er áhættan meiri en ávinningurinn.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV