Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Netárás hefur áhrif á stærstu olíuleiðslu Bandaríkjanna

epa09185943 A sign marks the below-ground location of a Colonial Pipeline petroleum pipeline in Woodbine, Maryland, USA, 08 May 2021. A cyberattack forced the shutdown of 5,500 miles of Colonial Pipeline's sprawling interstate system, which carries gasoline and jet fuel from Texas to New York.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stór hluti stærsta eldsneytisveitukerfis Bandaríkjanna er enn óvirkt eftir netárás á fyrirtækið Colonial Pipeline um helgina. Árásin, sem var umfangsmikil, var gerð með gagnagíslingarforriti (e. ransomware).

Leiðslur Colonial liggja frá ströndum Texas til austurstrandar Bandaríkjanna. Samanlagt eru þær tæplega níu þúsund kílómetrar og þjóna um 50 milljónum viðskiptavina. Í yfirlýsingu fyrirtækisins segir að aðalleiðslurnar séu enn óvirkar en einhverjar tengileiðslur virki enn sem og móttökustöðvar. Kerfið verður ekki sett af stað á ný fyrr en fyrirtækið hefur fullvissað sig um að það sé öruggt. Orkumálaráðuneytið aðstoðar Colonial að sögn AFP-fréttastofunnar og fyrirtækið er einnig í stöðugu sambandi við lögreglu og aðrar alríkisstofnanir. 

Daglega eru um tvær og hálf milljónir tunna af ýmis konar eldsneyti fluttar um leiðslur Colonial. Það er nær helmingur allrar dísilolíu, bensíns og flugvélaeldsneytis sem notað er á austurströnd Bandaríkjanna. Bandaríkjastjórn hefur veitt tímabundið leyfi til flutninga á eldsneyti með eldsneytisbílum á gert er við kerfi Colonial. Leyfið nær til átján ríkja Bandaríkjanna. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV