Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ítrekar að rannsókn Samherjaskjala sé í fullum gangi

Mynd með færslu
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.  Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að héraðssaksóknari hafi fengið skýr svör frá stjórnvöldum um að hann fái fjármagn til þess að sinna rannsókn í tengslum við Samherjaskjölin.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, spurði forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag um álag á rannsóknarsviði héraðssaksóknara. Nú hefði verið gripið til áþreifanlegra aðgerða í Noregi, Færeyjum og Namibíu í tengslum við Samherjaskjölin, en hér hefðu stjórnvöld hafnað aukinni fjárveitingu til rannsóknar- og eftirlitsstofnana sem vinna gegn spillingu.

Katrín svaraði því til að héraðsaksóknari hefði fengið þær fjárheimildir sem hann óskaði eftir, og að henni fyndist ekki gott ef það væri gefið í skyn að ekki væri verið að sinna rannsókn í tengslum við Samherjaskjölin af fullri alvöru.

„Mín sannfæring er sú að héraðssaksóknari sé svo sannarlega að sinna þessari rannsókn af fullri alvöru og hann hefur skýrar yfirlýsingar stjórnvalda um að hann fái þá fjármuni sem hann þarf til til að ljúka henni. Þannig að mér finnst mikilvægt að segja það að ég hef fulla trú á því að embættið sé að sinna þessu af atorku. En auðvitað tekur þetta tíma,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.