Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hvalreki í Thames

10.05.2021 - 05:19
Mynd: AP / AP
Breska sjóbjörgunarsveitin var kölluð út að ánni Thames í Lundúnum í gærkvöld vegna lítillar hrefnu sem hafði tekist að stranda við stíflu í suðvestanverðri borginni.

Hrefnan festi sig í skipastiga við Richmod um klukkan sjö í gærkvöld að staðartíma, og náðu björgunarsveitarmenn að koma dýrinu á öruggari stað laust fyrir klukkan eitt í nótt. Dýralæknir verður fenginn til að meta ástand hrefnunnar áður en henni verður sleppt út á haf. 

Matt Graveling, fréttamaður BBC, var á vettvangi þegar björgunaraðgerðum lauk. Hann birti myndband af aðgerðunum á Twitter, þar sem heyra má fögnuð viðstaddra þegar hvalnum er komið úr stiganum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV