Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Haraldur kveðst engum háður

10.05.2021 - 21:51
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarnefndar Alþingis, gagnrýnir að Haraldur Briem hafi verið skipaður til að vinna skýrslu um skimanir fyrir leghálskrabbameini og segir óskiljanlegt að hann geti talist óháður í málinu. Haraldur kveðst hins vegar engum háður.

Heilbrigðisráðherra hefur falið Haraldi Briem, fyrrverandi sóttvarnalækni, að vinna skýrslu um skipulag og framkvæmd skimana fyrir krabbameini í leghálsi. Skimunin færðist frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslunnar um áramótin og þurftu konur að bíða vikum og mánuðum saman eftir því að fá niðurstöður úr sýnatöku og greiningu. Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna óskuðu eftir því í febrúar að heilbrigðisráðherra léti vinna óháða skýrslu um framkvæmdina.

„Nú er Haraldur Briem mjög mætur maður og fróður á sínu sviði, fyrrverandi sóttvarnalæknir, en það má nú svona efast um hans óhæði ef svo má segja,“ segir Helga Vala.

Hún segir að Haraldur hafi verið náinn samstarfsmaður Kristjáns Oddssonar og Birgis Jakobssonar sem hafi tekið ákvarðanir um að breyta fyrirkomulagi skimana og þá hafi hann verið skimunarráði til ráðgjafar í málinu.

Telurðu að heilbrigðisráðherra sé með þessu að reyna að fá fram ákveðna niðurstöðu? 
„Ég átta mig ekki á henni í þessu máli og á hvaða leiðangri hún er,“ segir Helga.

Haraldur kveðst hins vegar engum háður. „Vissulega hef ég átt í samskiptum við þessa ágætu menn en mjög marga fleiri og það var þannig að þegar ég var ritari skimunarráðs þá sat ég ekki í ráðinu. Skimunarráðið sá sjálft um að skila sínum álitum til landlæknis og ráðherra. Ég var ekki aðili í því. Ég sá um fundargerðir og að kalla saman fundi og svo framvegis,“ segir hann.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að þú getir gert óháða rannsókn á þessu máli?
„Ég mat það þannig að ég gæti nú væntanlega gert það enda er ég óháður ellilífeyrisþegi og engum háður,“ segir Haraldur.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV