Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Haraldur Briem vinnur skýrslu um krabbameinsskimanir

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur falið Haraldi Briem, fyrrverandi sóttvarnalækni, að vinna skýrslu um skipulag og framkvæmd skimana fyrir krabbameini í leghálsi.

Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi óskuðu eftir því í febrúar að heilbrigðisráðherra léti vinna óháða skýrslu um skipulag og framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini, en um áramótin færðist sú skimun til Heilsugæslunnar frá Krabbameinsfélaginu. Sú tilfærsla hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig og hafa konur til að mynda þurft að bíða vikum og mánuðum saman eftir að fá niðurstöður úr sýnatöku og greiningu.

Í skýrslubeiðninni kemur fram að kanna skuli forsendur að baki þeirri ákvörðun að semja við erlenda rannsóknarstofu um að sinna greiningu á sýnum. Fjallað verði um samráð af hálfu heilbrigðisráðuneytisins í ferlinu; við hverja hafi verið haft samráð áður en ákveðið var að fela Hvidovre-sjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn verkefnið; og hver afstaða einstakra aðila hafi verið til þess að flytja greiningu á sýnum til útlanda.

Einnig að kanna skuli áhrif á aðgengi að sýnum fyrir sérfræðinga innan heilbrigðiskerfisins hérlendis og á kostnað við greiningu leghálssýna; hvort og þá hvernig heilbrigðisráðuneytið hafi lagt mat á greiningargetu meinafræðideildar Landspítala í tengslum við skimun fyrir leghálskrabbameini; og áhrif breytinganna á öryggi skimunar, meðal annars vegna aðgengis, flutninga og samskipta milli landa. Þá er einnig farið fram á að áhrif breytinganna á sérhæfð störf við greiningu sýna vegna krabbameinsskimunar á Íslandi verði könnuð, þar á meðal hvort einhver störf glatist og þá hversu mörg; áhrif á sérfræðiþekkingu við þessar breytingar; og hver áhrif kunna að verða á aðra rannsóknar- og greiningarvinnu hér á landi. 

Miðað er við að skýrslan verði tilbúin í byrjun júní.