Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Gripið til hertra aðgerða í Malasíu

10.05.2021 - 16:00
epa09161177 An elderly man receives a dose of Pfizer-BioNTech coronavirus vaccine against COVID-19 during second phase of Covid-19 vaccinations programme in Port Klang, outside Kuala Lumpur, Malaysia, 26 April 2021. The second phase involves 9.4 million senior citizens, aged 60 and above, as well as the vulnerable groups with morbidity problems, in addition to persons with disabilities.  EPA-EFE/FAZRY ISMAIL
Eldri borgari bólusettur við COVID-19 í Malasíu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Sóttvarnir verða hertar í Malasíu í vikunni vegna fjölgunar COVID-19 tilfella að undanförnu. Stjórnvöld hafa lýst yfir neyðarástandi til að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar.

Hinar nýju reglur ganga í gildi á miðvikudag, degi áður en Eid al-Fitr hátíðin hefst. Með henni lýkur Ramadan, föstumánuði múslima. Muhyiddin Yassin forsætisráðherra tilkynnti þetta í dag.

Samkvæmt nýju reglunum sem gilda til 7. júní hið minnsta verða veisluhöld í heimahúsum bönnuð og raunar er mælst til þess að fólk sleppi því að fara í heimsóknir. Brúðkaupsveislum verður að fresta að minnsta kosti fram í næsta mánuð. Fólk fær ekki að ferðast milli borga og bæja eða héraða. Einungis fimmtíu mega koma saman til bæna í stærstu moskum landsins og tuttugu í þeim litlu. Skólar og þar með taldir háskólar verða lokaðir, en leikskólar og frístundaheimili starfrækt áfram. Þrátt fyrir þetta er talið að hinar nýju reglur hafi ekki veruleg áhrif á atvinnulífið í Malasíu. 

Að sögn AFP fréttastofunnar hafa Malasar farið betur út úr heimsfaraldrinum en margar aðrar þjóðir. Dauðsföll af völdum COVID-19 eru um sautján hundruð. Smitum hefur þó fjölgað það mikið að undanförnu að stjórnvöld hafa áhyggjur af ástandinu, og ekki síst nýjum afbrigðum kórónuveirunnar sem talin eru eiga upptök sín í Suður-Afríku og á Indlandi. 
 

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV