
Gripið til hertra aðgerða í Malasíu
Hinar nýju reglur ganga í gildi á miðvikudag, degi áður en Eid al-Fitr hátíðin hefst. Með henni lýkur Ramadan, föstumánuði múslima. Muhyiddin Yassin forsætisráðherra tilkynnti þetta í dag.
Samkvæmt nýju reglunum sem gilda til 7. júní hið minnsta verða veisluhöld í heimahúsum bönnuð og raunar er mælst til þess að fólk sleppi því að fara í heimsóknir. Brúðkaupsveislum verður að fresta að minnsta kosti fram í næsta mánuð. Fólk fær ekki að ferðast milli borga og bæja eða héraða. Einungis fimmtíu mega koma saman til bæna í stærstu moskum landsins og tuttugu í þeim litlu. Skólar og þar með taldir háskólar verða lokaðir, en leikskólar og frístundaheimili starfrækt áfram. Þrátt fyrir þetta er talið að hinar nýju reglur hafi ekki veruleg áhrif á atvinnulífið í Malasíu.
Að sögn AFP fréttastofunnar hafa Malasar farið betur út úr heimsfaraldrinum en margar aðrar þjóðir. Dauðsföll af völdum COVID-19 eru um sautján hundruð. Smitum hefur þó fjölgað það mikið að undanförnu að stjórnvöld hafa áhyggjur af ástandinu, og ekki síst nýjum afbrigðum kórónuveirunnar sem talin eru eiga upptök sín í Suður-Afríku og á Indlandi.