Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fjöldi offituaðgerða margfaldaðist á örfáum árum

10.05.2021 - 07:47
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Offituaðgerðum hefur fjölgað ört hér á landi á síðustu fimm árum. Aðgerðirnar eru gerðar á Landspítalanum og á Klíníkinni í Ármúla. Árið 2017 voru gerðar 62 aðgerðir á Klíníkinni en í ár stefnir í að þær verði þúsund. Aðalsteinn Arnarson, skurðlæknir hjá Klíníkinni, segir fjölgunina skýrast af mörgum samverkandi þáttum, meðal annars því að einfaldari aðgerðir séu í boði nú en áður.

Lægri þröskuldur í ákvarðanatöku

Árlegur fjöldi aðgerða á Klíníkinni hefur um það bil tvöfaldast ár hvert frá árinu 2017. Um 78 prósent þeirra sem undirgangast slíkar aðgerðir eru konur og meðalaldurinn er um 44 ár.  Þetta kemur fram í svari Svandísar Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata. 

„Ein ástæðan er sú að við byrjuðum ekki fyrr en í byrjun árs 2017 og það tekur tíma að skapa sér nafn og að fólk viti að þessi þjónusta er til staðar. Síðan kemur önnur útskýring að áður voru fyrst og fremst gerðar hjáveituaðgerðir sem eru stærri aðgerðir og reyna meira á það hvers kyns mataræði viðkomandi þarf að vera á og annars konar fylgikvillar geta komið upp,“ segir Aðalsteinn.

Magaermisaðgerð hafi notið aukinna vinsælda á síðustu árum: „Hún er kannski orðin rúmlega 60 prósent allra þessara aðgerða á heimsvísu í dag. Ermin er einföld aðgerð og fólki finnst hún líka vera minna inngrip í meltinguna. Þannig að það er lægri þröskuldur fyrir fólk að ákveða að fara í þá aðgerð,“ segir hann. Það spyrjist út milli fólks þegar magaermisaðgerðir ganga vel: „Það hefur þá þau áhrif að fólk leitar í þessar aðgerðir.“

COVID-19 spilar inn í

Aðalsteinn segir að einnig kunni að vera að heimsfaraldurinn hafi haft áhrif á fjöldann sem fer í aðgerð á Íslandi: „Því við vitum ekki hversu margir hafa áður verið að fara erlendis. Síðastliðið ár hafa Sjúkratryggingar ekki viljað senda fólk erlendis, sem þau hafa annars verið að gera, og fólk hefur áður verið að fara til láglaunalanda þar sem eru lægri verð á þessum aðgerðum. En nú er þetta fólk líklega frekar að gera þetta hérna á Íslandi.“ 

Aðgerðir á Landspítalanum fyrir þau í mestri þörf

Aðalsteinn segir að Landspítalinn hafi síðustu ár gert um það bil 70-80 efnaskiptaaðgerðir á ári. „Þangað inn eru ákveðnar kröfur. Sjúkratryggingar Íslands hafa gert þær kröfur að þeir sem fara inn á Landspítala fari fyrst í undirbúningsvinnu í gegnum Reykjalund. Og inn á Reykjalund er í augnablikinu held ég ársbiðtími og svo er aftur ársbiðtími í aðgerðina. Landspítalinn hefur fyrst og fremst það hlutverk að sinna þeim sem eru í mestri þörf,“ segir hann, en þeir sem sækja þjónustuna á Klíníkina þurfa að greiða fyrir hana úr eigin vasa og Sjúkratryggingar taka ekki þátt í kostnaðinum. 

„Erum í slæmum málum á Íslandi“

Aðalsteinn segir að offita sé sífellt stærra vandamál á heimsvísu. „En hún er vonandi að ná einhvers konar toppi. Hér á Íslandi fylgjum við gjarnan Bandaríkjunum, eða Englandi sem er land sem er einna verst statt í Evrópu, þannig að við erum því miður í slæmum málum á Íslandi hvað þetta snertir. Það þarf að bæta í forvarnir. Við erum að reyna að bregðast við vandamalinu en það væri miklu betra að fyrirbyggja það.“ Hann segir að þróunin á sykursýki 2 hér á landi sé nákvæmlega eins og hún hefur verið í Bandaríkjunum, aðeins nokkrum árum á eftir hér.