Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Dregur úr trausti þolenda á réttarkerfinu

10.05.2021 - 22:28
Mynd: RÚV / Skjáskot
Það dregur úr trausti þolenda kynferðisofbeldis á réttarkerfinu að Landsréttur sé líklegri til að milda dóma í kynferðisbrotamálum en öðrum málum. Þetta segir doktor í réttarfélagsfræði. Þessi þróun hefur verið rædd innan Landsréttar.

Landsréttur mildar 40% kynferðisbrotadóma en 25% ofbeldis- og fíkniefnabrota samkvæmt svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi. Ein af þeim skýringum sem nefndar hafa verið er að aðallega sé horft til beinna sannanna í kynferðisbrotamálum sem gætu til dæmis verið ef vitni væru að brotinu.

„Það er þá mjög mikið áhyggjuefni,“ segir Hildur Fjóla Antonsdóttir doktor í réttarfélagsfræði. „Það var umræða um þetta fyrir einhverjum árum síðan um þessar beinu og óbeinu sannanir í kynferðisbrotamálum. Og ég hélt að niðurstaðan úr þeim umræðum hefði verið sú að að sjálfsögðu eigi að taka tillit til óbeinna sannana, það hefur verið gert í íslenskum rétti um aldir.“

Beinar sannanir gætu til dæmis verið ef vitni væru að brotinu. „Það er að sjálfsögðu ekki þannig í langflestum kynferðisbrotamálum,“ segir Hildur. „Óbeinar sannanir eru þessar sannanir sem við erum með í kynferðisbrotamálunum sem eru vottorð lækna, sálfræðinga, vitni sem lýsa því í hvaða ástandi brotaþoli var semsagt eftir atburðinn. Þannig að við getum gleymt þessu, að fara með kynferðisbrotin inn í refsiréttinn, ef krafan er um beinar sannanir.“

 

Er þessi þróun í Landsrétti undanfarin þrjú ár til þess fallin að auka traust á réttarkerfinu? „Nei og það er einmitt annað áhyggjuefni sem ég myndi ætla að dómstólar ættu að hafa áhyggjur af. Ég held að traust á dómstólum hér á landi hafi ekki farið yfir 50% á síðustu árum. Það er mjög lágt og ég held að hvernig farið er með þennan málaflokk sé ekki til þess að auka traust á dómstólum.“

Snúi Landsréttur sekt í sýknu eru fáar leiðir færar fyrir þolanda kynferðisbrots til að halda áfram með mál sitt. Þar sem brotaþolar eru ekki aðilar að málum geta þeir ekki áfrýjað þeim. Ein leiðin er að fara í einkamál, sem er mjög kostnaðarsamt. 

„En þar er sönnunarstaðan allt öðruvísi en í refsiréttinum,  þannig að það er meiri séns á að fá viðurkenningu í einkamáli. Svo er hægt að skoða að fara með málið til Mannréttindadómstólsins,“ segir Hildur.

Hildur vann að tillögum fyrir stýrihóp á vegum forsætisráðuneytisins árið 2019 þar sem lagt var til að brotaþolar í kynferðisbrotamálum fengju gjafsókn til að geta farið í einkamál. Hún segir að þær tilllögur séu, eftir því sem hún viti best, til skoðunar hjá réttarfarsnefnd dómsmálaráðuneytisins. „Þetta væri leið fyrir fólk til að fá lagalega viðurkenningu á því að það hafi verið brotið á því.“

Brotaþolarnir í þessum málaflokki séu oftast ungar konur. „Og það að eyða lunga úr lífi sínu, sínu unga lífi, að vera með mál fyrir dómstólum - það er hræðileg tilhugsun fyrir flesta. Og flestir vilja að þessum málum ljúki sem fyrst.“

Hervör Þorvaldsdóttir  forseti Landsréttar gaf ekki kost á viðtali en Gunnar Viðar skrifstofustjóri Landsréttar segir að til að finna skýringar þyrfti að skoða forsendur fyrir niðurstöður í hverju dómsmáli fyrir sig. Það hafi ekki verið gert. Hann segir að málið hafi verið rætt innan Landsréttar en dómarar geti ekki dæmt á grundvelli tölfræði, heldur dæmi þeir hvert mál á þeim forsendum sem liggi fyrir hverju sinni.