Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Daði klífur upp veðbankann eftir fyrstu æfingu

Fyrsta æfing Daða og Gagnamagnsins í Ahoy höllinni í Rotterdam Eurovision 2021
 Mynd: EBU / ANDRES PUTTING

Daði klífur upp veðbankann eftir fyrstu æfingu

10.05.2021 - 16:17

Höfundar

Fyrsta æfing Daða og Gagnamagnsins fór fram í Ahoy höllinni í Rotterdam eftir hádegi í dag. Eftir æfinguna fór lagið aftur í 5. sæti veðbanka eftir að hafa vermt það 6. í nokkra daga. Örfáum klukkutímum eftir æfinguna var lagið komið í 4. sæti.

Á æfingunni frumsýndi listahópurinn glænýja búninga, sem Lovísa Tómasdóttir klæðskeri hannar, grafík og hljóðfæri.

Á blaðamannafundi eftir æfinguna sögðu meðlimir Gagnamagnsins að þau hafi verið rosalega tilbúin að stíga á sviðið og tilfinningin sem fylgdi því hafi verið góð. „Við vorum með nokkra punkta sem við munum mögulega breyta í atriðinu, kameruvinkla og slíkt, sem verður auðvelt að vinna með,“ segir Daði um æfinguna í dag og framhaldið.

Í dag var hulunni líka svipt af nýrri útfærslu á hljóðfærum hópsins. Árný Fjóla sá um að hanna nýju hljóðfærin og smíðaði þau í samvinnu við Daða og pabba sinn. 

Tölvuleikjaheimur Gagnamagnsins og tölvugerð andlit meðlimanna eru áberandi í atriðinu. Innblástur í grafíkinni er fenginn meðal annars frá Jóhönnu Guðrúnu sem fór fyrir Íslands hönd í Eurovision 2009, hinn fljúgandi höfrungur og trommum, sem voru áberandi í siguratriði Ruslönu frá árinu 2004. Rennsli íslenska hópsins var varpað á stóran skjá annars staðar í höllinni og uppskar klapp. 

Eitís og retró búningar

„Nýju búningarnir eru algjörlega í þeirra stíl,“ segir Lovísa Tómasdóttir klæðskeri en áfram er unnið með Gagnamagns-grænan og tölvugerð andlit meðlimanna sem eru prentuð á búningana. „Axlirnar reffa í ofurhetjubúninga Gagnamagnsins, þar sjáum við sama form og í myndbandinu. Svo er eitís stemning í mynstrinu,“ segir Lovísa. Gagnamagns meðlimir eru í aðeins ólíkum peysum, Daði og Hulda eru með hettu á sinni og peysurnar eru síðan aðeins mismunandi í sídd. 

Lovísa vann nokkrar prufugerðir að klæðnaðinum áður en ákvörðun var tekin um endanlegt útlit sem allir eru sáttir við. Í heildina tók vinnan við búningana á þriðja mánuð. 

Næsta æfing íslenska hópsins er á fimmtudaginn. Daði og Gagnamagnið stíga svo á svið fimmtudaginn 20. maí í seinni undanúrslitum Eurovision.

Tengdar fréttir

Tónlist

Óljóst hvort Daði kemst inn í Gagnamagnsbílinn

Tónlist

„Bara Danir og Íslendingar munu ná þessu djóki“

Menningarefni

„Það er rosa hressleiki, kannski smá galsi“